Breiðablik kom fram hefndum í Árbænum

Hildur Þóra Hákonardóttir hjá Breiðabliki og Hulda Hrund Arnarsdóttir úr …
Hildur Þóra Hákonardóttir hjá Breiðabliki og Hulda Hrund Arnarsdóttir úr Fylki eigast við í kvöld. mbl.is/Árni Sæberg

Breiðablik er komið í átta liða úrslit Mjólkurbikars kvenna í fótbolta eftir 1:0-sigur á Fylki á Würth-vellinum í Árbænum í kvöld. Náði Breiðablik þar með að hefna fyrir ósigurinn frá því á síðasta ári, en Fylkir sló Breiðablik úr leik á sama stigi í sömu keppni á síðasta ári. 

Breiðablik byrjaði af miklum krafti og átti ekki í vandræðum með að skapa sér færi í upphafi leiks. Agla María Albertsdóttir nýtti eitt slíkt á 9. mínútu. Skoraði landsliðskonan þá af stuttu færi eftir góðan undirbúning Karólínu Leu Vilhjálmsdóttur. 

Breiðablik var áfram sterkari aðilinn næstu mínútur en eftir því sem leið á hálfleikinn komst Fylkir betur inn í leikinn og Bryndís Arna Níelsdóttir komst næst því að jafna, en Íris Dögg Gunnarsdóttir í marki Breiðabliks varði hættulegt skot hennar vel. Var staðan í hálfleik því 1:0. 

Gestirnir úr Kópavogi náðu aftur völdunum í upphafi seinni hálfleiks og var boltinn á vallarhelmingi Fylkis meira og minna fyrstu 20 mínúturnar í seinni hálfleiks, en Breiðabliki gekk illa að skapa sér virkilega hættulegt færi. 

Líkt og í fyrri hálfleiknum tókst Fylki að vinna sér betur inn í leikinn eftir því sem leið á seinni hálfleikinn og Bryndís Arna fékk tvö fín færi til viðbótar en Íris Dögg stóð sig virkilega vel á milli stanganna hjá Breiðabliki. Cecilía Rán Rúnarsdóttir var lítið síðri hinum megin og varði hún m.a. glæsilega frá Sveindísi Jane Jónsdóttur um miðjan hálfleikinn. 

Þrátt fyrir færi beggja liða reyndist mark Berglindar sigurmarkið og Breiðablik hefndi ófaranna frá því á síðasta ári. 

Fylkir 0:1 Breiðablik opna loka
90. mín. Kolbrún Tinna Eyjólfsdóttir (Fylkir) kemur inn á
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert