Handbolti

HSÍ mótmælir harðlega ákvörðun EHF um að fresta landsleik

Sindri Sverrisson skrifar
Aron Pálmarsson er í íslenska landsliðshópnum sem átti að mæta Ísrael.
Aron Pálmarsson er í íslenska landsliðshópnum sem átti að mæta Ísrael. vísir/Andri Marinó

Handknattleikssamband Evrópu, EHF, hefur ákveðið að fresta leik Íslands og Ísraels í undankeppni EM karla, tíu dögum áður en leikurinn átti að fara fram.

Samkvæmt fréttatilkynningu frá HSÍ tók EHF ákvörðunina að beiðni ísraelska handknattleikssambandsins. Ísraelar munu eiga erfitt með að ferðast til Íslands vegna ferðatakmarkana af völdum kórónuveirufaraldursins.

Handknattleikssamband Ísraels hafði áður komist að samkomulagi við HSÍ um að skipta á heimaleikjum, svo að leikurinn nú í haust færi fram á Íslandi.

Í tilkynningu HSÍ segir að frestuninni hafi nú þegar verið mótmælt harðlega og að beðið sé svara frá EHF. Nú þegar hafi HSÍ lagt út í töluverðan kostnað vegna leiksins og afar óljóst sé hvenær og hvort hægt verði að spila hann. Töluverður aukakostnaður fylgi því að spila leikinn á öðrum degi.

Ísland mun eftir sem áður mæta Litháen í undankeppninni í Laugardalshöll eftir viku, 4. nóvember. HSÍ fékk leyfi heilbrigðisyfirvalda fyrir leiknum og æfingum landsliðsmanna í tvo daga fyrir leikinn.

Þess má geta að Noregur átti að spila gegn Lettlandi í sömu undankeppni 4. nóvember en þeim leik var frestað.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×