Spila hungraða vampíru í nýjum leik

Vampire: The Masquerade - Swansong.
Vampire: The Masquerade - Swansong. Grafík/Big Bad Wolf

Vampíruleikurinn Vampire: The Masquerade - Swansong kom út í gær, en þar eru leikmenn settir í hlutverk vampíra og þurfa að takast á við ýmis verkefni innanleikjar.

Swansong er nokkuð flókinn leikur, en erfiðar ráðgátur bíða eftir því að vera leystar og leikmenn eru knúnir til þess að taka mikilvægar ákvarðanir innanleikjar sem hafa áhrif á söguþráðinn.

Mikilvægt er að passa upp á ímyndina, en sem vampíra í mennskum heim þurfa leikmenn að passa að það komist ekki upp um þá - enginn má vita að þeir séu í raun vampíra. 

Ráðleggingar birtar um spilun leiksins

Gamespot birti grein með ráðleggingum um spilun leiksins og hvernig leikmenn geti sleppt því að „vera ömurlegir“ í honum. 

Þar kemur meðal annars fram að gott sé að nota viljastyrkinn skynsamlega í upphafi hverrar senu. Viljastyrkurinn eru bláir demantar sem notaðir eru í samtölum við óspilanlegar persónur til þess að hafa áhrif á huga þeirra.

Sanka að sér upplýsingum og passa hungrið

Gamespot varar leikmenn einnig við því að nota krafta sína of oft, en þó að einhver kraftur sé aðgengilegur til brúkunar þá þýðir það ekki að það sé það rétta í stöðunni. Eins ráðleggur Gamespot leikmönnum að tala oft og mikið við aðrar óspilanlegar persónur, glósa niður hjá sér og athuga hlutina sína ítrekað.

Að efla menntunar- og ályktunarstig sín (e. education and deduction) er mikilvægt fyrir leikmenn og þá sérstaklega ef þeir spila Leyshu, enn fremur þurfa leikmenn að passa upp á hungur persónu sinnar og að vera óhræddir við að nota neysluvörur (e. consumables).

Greinina frá Gamespot með ráðleggingum um spilun leiksins má lesa í heild sinni með því að fylgja þessum hlekk.

Hægt er að spila leikinn á öllum helstu leikjatölvum, Nintendo Switch, Xbox, PlayStation og PC-tölvum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert