Þarf að vera þolinmóður og grípa tækifærið

Karl Friðleifur Gunnarsson og fleiri Víkingar fagna að leikslokum.
Karl Friðleifur Gunnarsson og fleiri Víkingar fagna að leikslokum. Hákon Pálsson

Karl Friðleifur Gunnarsson var feginn þegar að blaðamaður mbl.is talaði við hann eftir 1:0 sigur Víkings á in­ter d'Escaldes frá Andorra í úr­slita­leik for­keppni Meist­ara­deild­ar Evr­ópu í knatt­spyrnu karla á Vík­ings­velli í kvöld. Karl kom inn á völlinn á 55. mínútu og var einn af þeim sem gerðu gæfumuninn í dag. 

„Mér fannst þetta ekkert spes leikur hjá okkur, sérstaklega í fyrri hálfleik. Þeir spiluðu góða vörn og náðu að loka á okkur. Svo í seinni hálfleik þá náðum við að opna þá aðeins með breyttu kerfi og ferskum löppum inn þar sem menn voru kannski þreyttir eftir síðasta leik. Svo vorum við heppnir að klára þetta í lokin.“

Karl Friðleifur spilaði vel eftir að hann kom inn og átti tvær frábærar fyrirgjafir í leiknum, ein sem endaði með skoti rétt framhjá og svo hin sem endaði með skalla Kristals Mána Ingasonar í netið. Aðspurður út í hvað honum fannst um sína frammistöðu sagði Karl:

„Ég er klárlega sáttur með mína frammistöðu. Ég er alltaf svekktur að byrja á bekknum og þetta var smá raunveruleikatékk fyrir mig. En það var gaman að sjá Stalla skalla boltann í netið. 

Við þurfum að nýta hæfileika hvers og eins í þessum hóp. Það þurfa allir að fá mínútur þannig maður þarf að vera þolinmóður og grípa tækifærið þegar það kemur að manni.“

Þið eruð búnir að vinna sex leiki í röð eftir erfiða byrjun, hvernig?

Við höfum ekki beint breytt neinu. Úrslitin eru bara loksins farin að detta. Mér finnst við búnir að spila vel allt tímabilið og það var bara spurning um hvenær þetta myndi þetta, og þetta er farið að detta með okkur núna, “ sagði Karl Friðleifur að lokum. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert