Ekki hækkað meira milli ára frá 2016

Landsbankinn.
Landsbankinn. mbl.is/Kristinn Magnússon

Verðbólga í desember mældist 5,1% en árshækkun launavísitölunnar um 7,3%. Kaupmáttur launa jókst því um 2,1% milli desembermánaða 2020 og 2021 þrátt fyrir óvenju mikla verðbólgu.

Kaupmáttaraukning launa er áfram nokkuð stöðug og nokkuð mikil í sögulegu samhengi. Kaupmáttarvísitalan hefur lækkað lítillega frá því í janúar í fyrra og var kaupmáttur launa í desember 1,6% lægri en í janúar, en þá var kaupmáttur í sögulegu hámarki, að því er kemur fram í Hagsjá hagfræðideildar Landsbankans. 

Launavísitalan hækkaði um 8,3% á milli meðaltala áranna 2020 og 2021 og er þetta mun meiri hækkun en á næstu árum þar á undan. Vísitalan hefur ekki hækkað meira frá því á árinu 2016, þegar hún hækkaði mest á þessari öld.

Kaupmáttur launa jókst um 3,7% milli áranna 2020 og 2021 sem er meira en næstu tvö ár þar á undan. Verðbólga var mikil á árinu og skiluðu tiltölulega miklar launahækkanir því síðri kaupmætti en ella hefði orðið, að því er kemur fram í Hagsjánni.

Laun á almenna markaðnum á milli októbermánaða 2020 og 2021 hækkuðu áfram mun minna en á þeim opinbera. Launin hækkuðu um 6,5% á almenna markaðnum og um 10,4% á þeim opinbera, þar af 9,5% hjá ríkinu og 11,7% hjá sveitarfélögunum. Opinberi markaðurinn var því leiðandi í launabreytingum á tímabilinu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert