Fylgdu 120 bílum yfir Fjarðarheiði

Vegagerðin fylgdi 120 bílum yfir Fjarðarheiði í dag á snjóplógum. …
Vegagerðin fylgdi 120 bílum yfir Fjarðarheiði í dag á snjóplógum. Mynd úr safni. mbl.is/Sigurður Bogi Sævarsson

„Við fylgdum 120 bílum yfir Fjarðarheiðina í dag. Það fóru um 20 bílar með okkur frá Egilsstöðum til Seyðisfjarðar og um 100 bílar frá Seyðisfirði til Egilsstaða,“ segir Jens Olsen Hilmarsson, yfirverkstjóri Vegagerðarinnar á Egilsstöðum.

Vegagerðinni tókst loks að fara fylgdarakstur yfir Fjarðarheiði sem staðið hefur til síðan í gær, einkum til að ferja ferðamenn úr Norrænu sem hafa verið veðurtepptir á Seyðisfirði síðan í gærmorgun.

Sáu eingöngu Seyðisfjörð

„Við fórum í fylgdarakstur í dag. Okkur tókst að byrja klukkan þrjú í dag og við vorum að til klukkan sjö í kvöld,“ segir Jens.

Jens segir þá farþega sem komu til landsins með Norrænu í gær til að fara í skoðunarferðir í gær og í dag eingöngu hafa séð Seyðisfjörð en þeir farþegar sigla af landi brott í kvöld.

„Farþegarnir sem komu með Norrænu í gær og okkur tókst að fylgja yfir heiðina í dag eru hins vegar ferðamenn sem eru komnir hingað til lands til að dvelja í aðeins lengri tíma,“ segir hann og heldur áfram.

„Þetta er búinn að vera þokkalegur hvellur hjá okkur. Nú slaknar aðeins á veðrinu og við getum farið að anda á ný,“ segir Jens Olsen Hilmarsson að lokum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka