Síðasti viðskiptadagur vikunnar í kauphöll Nasdaq á Íslandi var rauðleitur, en til marks um það lækkaði gengi 12 félaga af þeim 20 sem skráð eru á Aðalmarkað. Fyrir vikið lækkaði OMXI10 úrvalsvísitalan um 1,43% og stendur nú í 3.271,77 stigum. Heildarvelta viðskipta dagsins nam 5 milljörðum króna.

Gengi einungis þriggja félaga hækkaði í viðskiptum dagsins og voru bréf Eimskips þar langfremst meðal jafningja. Hækkaði gengi félagsins um 4,17% í 1,1 milljarða króna viðskiptum. Stendur gengi félagsins í kjölfarið í 500 krónum á hlut. Gengi Sýnar og Kviku hækkaði einnig, en í báðum tilfellum var um innan við 1% hækkun að ræða.

Gengi hlutabréfa Marels lækkaði mest í viðskiptum dagsins, eða um 2,38% í 618 milljóna króna viðskiptum. Gengi hlutabréfa Iceland Seafood lækkaði næst mest, um 1,95% í 44 milljóna króna veltu.