„Endalaust af feilum“

Baldur Þór Ragnarsson, þjálfari Tindastóls.
Baldur Þór Ragnarsson, þjálfari Tindastóls. Ljósmynd/Þórir Tryggvason

Baldur Þór Ragnarsson, þjálfari Tindastóls, var vonsvikinn með frammistöðu sinna manna þegar liðið tapaði 69:91 gegn ÍR í Dominos-deildinni í körfuknattleik karla í kvöld.

„Ég er bara mjög ósáttur með þennan leik af okkar hálfu. Við setjum enga frammistöðu fram og vorum slakir á varnarvelli og sóknarvelli,“ sagði Baldur Þór í samtali við mbl.is eftir leik.

Leikmönnum Tindastóls gekk bölvanlega að hitta úr þriggja stiga skotum sínum í leiknum og settu aðeins sjö af 39 í körfuna. Aðspurður hvað gæti valdið því, hvort það væri mögulega eitthvað andlegt hjá leikmönnum, sagði hann: „Það hlýtur bara að vera. Menn eru eitthvað að setja of mikla pressu á sjálfa sig og eru komnir í einhvern hring í hausnum.“

Stuðningssveit ÍR, Ghetto Hooligans, lét afar vel í sér heyra í leiknum svo glumdi um Hertz-hellinn í Seljaskóla. Leikmenn Dominos-deildarinnar hafa vanist því að spila án áhorfenda undanfarna mánuði. Höfðu lætin einhver áhrif á leikmenn Tindastóls? „Það gæti vel verið að það hafi haft áhrif, en menn eiga að vera reyndari en það,“ sagði Baldur Þór.

Spurður hvað leikmenn Tindastóls þyrftu að bæta í framhaldinu var svar hans einfalt: „Það er náttúrlega bara að gera betur bæði á varnar- og sóknarvelli. Það var endalaust af feilum, enginn vilji til staðar og það þarf auðvitað að vera karakter í liðinu,“ sagði Baldur Þór að lokum í samtali við mbl.is.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert