Mest svekkjandi tapið á ferlinum

Arnór Ingvi Traustason svekktur í leikslok.
Arnór Ingvi Traustason svekktur í leikslok. Ljósmynd/Alex Nicodim

„Akkúrat núna er þetta mjög þungt. Við vorum grátlega nálægt þessu,“ sagði Arnór Ingvi Traustason í samtali við Stöð 2 Sport eftir 2:1-tap fyrir Úkraínu í úrslitaleik umspils um laust sæti á EM 2024 í kvöld.

„Við einhvern veginn misstum sjálfstraustið þegar kom að því að þora að halda í boltann og treysta okkur sjálfum fyrir þessu. Það er margt sem fór úrskeiðis,“ hélt Arnór Ingvi áfram.

Spurður hvað hafi vantað upp á til þess að ná að jafna leikinn sagði hann:

„Þegar þeir komast í 2:1 er þetta mjög þungt en við fórum að reyna að halda meira í boltann og sköpuðum okkur einhver færi, til dæmis frábær skot frá Jóni Degi [Þorsteinssyni].

Svo vantaði herslumun. Mikael [Anderson] var nálægt því að fá skallafæri eftir sendingu frá Kolbeini [Birgi Finnssyni]. Svo var það ekki mikið meira en það.“

Að lokum var Arnór Ingvi spurður hvort um mest svekkjandi tap hans á ferlinum væri að ræða.

„Já, það má eiginlega segja það,“ sagði Njarðvíkingurinn hreinskilinn.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert