Flestir treysta Sjálfstæðisflokknum fyrir fjármálunum

Háskólamenntaðir borgarbúar virðast treysta Samfylkingunni best.
Háskólamenntaðir borgarbúar virðast treysta Samfylkingunni best. mbl.is/Sigurður Bogi

Flestir borgarbúar treysta Sjálfstæðisflokknum best til að sinna fjármálum Reykjavíkurborgar ef marka má niðurstöður nýrrar könnunar Maskínu. 27,7 prósent aðspurðra treysta Sjálfstæðisflokknum best fyrir málaflokknum, en 25,2 prósent treysta Samfylkingunni best.

Töluvert munar á þessum tveimur flokkum og þeim flokkum sem á eftir koma, en Píratar eru í þriðja sæti þegar kemur að trausti til að sinna fjármálum borgarinnar og treysta 13,6 prósent svarenda þeim best. Þar á eftir kemur Viðreisn með 9,6 prósent og Framsókn með 7,2 prósent.

Þegar kemur að samgöngumálum virðast borgarbúar treysta Samfylkingunni best, en 28,9 prósent svarenda leggja traust sitt á flokkinn í þeim málaflokki. 24,2 prósent svarenda treysta hins vegar Sjálfstæðisflokknum best, 12,5 prósent Pírötum og 9,2 prósent Framsókn.

Flestir treysta einnig Samfylkingunni best fyrir skipulagsmálum borgarinnar, eða 29,6 prósent, en 24,8 prósent svarenda telja að Sjálfstæðisflokknum sé best treystandi fyrir málaflokknum. 11,7 prósent treysta Pírötum best og 8,8 prósent Viðreisn.

Samfylkingunni virðist einnig best treystandi fyrir skólamálum, en 28,5 prósent svarenda treysta flokknum best í þeim málaflokki. 21 prósent treysta Sjálfstæðisflokknum best fyrir málaflokknum, 11,8 prósent Pírötum og 11,7 prósent Framsókn.

Þegar kemur að umhverfismálum breytist uppröðunin töluvert, en flestir treysta Vinstri grænum fyrir málaflokknum. 18,9 prósent treyst Pírötum best, en 18,3 prósent Samfylkingunni og 15 prósent Sjálfstæðisflokknum.

Háskólamenntaðir virðast treysta Samfylkingunni áberandi mest í flestum málaflokkum og íbúar í Vesturbænum og Miðborginni leggja einnig mikið traust á Samfylkinguna í flestum málflokkum, að fjármálum borgarinnar undanskildum.

Könnunin fór fram dagana 6. til 11. maí og voru svarendur 1012 talsins.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert