„Er ekki að biðja um neitt brjálæðislegt“

Mohamed Salah vill vera áfram í herbúðum Liverpool.
Mohamed Salah vill vera áfram í herbúðum Liverpool. AFP

Mohamed Salah, sóknarmaður Liverpool og egypska landsliðsins, segist ekki vera að biðja um svimandi háar upphæðir í viðræðum sínum við enska félagið um nýjan samning.

Salah, sem er einn besti knattspyrnumaður heims, á nú aðeins 18 mánuði eftir af núgildandi samningi sínum og hafa samningaviðræður við Liverpool gengið brösuglega.

Þrátt fyrir það hefur Salah imprað á því í viðtölum að hann vilji gjarna vera áfram hjá Liverpool, þar sem hann hefur raðað inn mörkum frá því að hann kom frá Roma sumarið 2017. Það sé þó ekki í hans höndum.

„Ég vil vera áfram en það er ekki í mínum höndum. Það er í þeirra höndum. Þeir vita hvað ég fer fram á. Ég er ekki að biðja um neitt brjálæðislegt,“ sagði Salah í samtali við GQ-tímaritið.

Hann sagðist telja að hann ætti skilið góðan samning vegna frammistöðu sinnar í gegnum árin, en Salah átti stóran þátt í því að Liverpool vann Meistaradeild Evrópu árið 2019 og ensku úrvalsdeildina ári síðar.

„Málið er að þegar þú biður um eitthvað og þeir sýna þér að þeir séu færir um að veita þér það ættu þeir að gera það af því að þeir kunna að meta það sem þú hefur gert fyrir félagið.

Ég hef verið hér í að verða fimm ár. Ég þekki félagið mjög vel. Ég elska stuðningsmennina og stuðningsmennirnir elska mig. En stjórnendunum hefur verið gerð grein fyrir stöðunni og þetta er í þeirra höndum,“ bætti Salah við.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert