„Stór hluti þjóðarinnar stóð þarna með okkur“

Þótt konurnar hafi ekkert sofið í nótt var mikil stemmning …
Þótt konurnar hafi ekkert sofið í nótt var mikil stemmning í hópnum þegar þær komu niður. Ljósmynd/Aðsend

Hver einasta af þeim 126 konum sem ætlaði sér að ganga á topp Hvannadalshnúks í dag til styrktar Lífskrafti, komst á toppinn. Brynhildur Ólafsdóttir, annar leiðangursstjóra, segir að gangan hafi verið tilfinningarík og að magnað sé að allar konurnar hafi komist upp. 

„Það hefði enginn getað logið því að mér að þetta myndi ganga svona vel. Þetta er bara búið að vera svo tilfinningaríkt ferðalag vegna þess að þær eru allar að skora sjálfar sig á hólm og eru líka að ganga fyrir einhvern eða í minningu einhvers. Vinir mínir segja að ég sé ekki mjög tilfinningarík manneskja en ég er bara búin að vera í tárum,“ segir Brynhildur sem var nýkomin niður af tindinum þegar blaðamaður ræddi við hana. 

Veðrið lék við konurnar þótt kalt hafi verið þegar þær lögðu af stað í nótt. 

„Við vorum að stíla inn á veðurglugga svo við fengjum bjart og heiðskírt veður. Veðurstofan er búin að vera að hjálpa okkur á alla kanta að stíla inn á þetta. Sólin var að koma upp í austri þegar við komum upp fyrir öskjubrúnina, tindarnir voru roðagylltir og svo var hún byrjuð að hita okkur þegar við vorum að koma upp á hnúkinn,“ segir Brynhildur.

Fyrsta sóttvarnahólfið er komið niður af Hvannadalshnúk.
Fyrsta sóttvarnahólfið er komið niður af Hvannadalshnúk. Ljósmynd/Aðsend

Miklu fleiri en 126 sem tóku þátt

Flestar kvennanna hafa fengið krabbamein eða þekkja einhvern sem hafa gengið í gegnum slíkt en með göngunni safna konurnar fyrir krabbameinsdeild Landspítala.

„Það voru svo miklu fleiri en þessar 126 sem tóku þátt í þessu ferðalagi. Stór hluti þjóðarinnar stóð þarna uppi á hæsta tind með okkur,“ segir Brynhildur.

Konurnar fylgdu ströngum sóttvarnareglum og skiptu sér upp í sóttvarnahólf. Fyrsta hólfið er nú komið niður af hnúknum. 

Ein af erfiðustu dagleiðum Evrópu

Brynhildur segir að það hefði verið eðlilegt að einhver afföll yrðu en svo var ekki. Margar kvennanna hafa engan bakgrunn í fjallamennsku en eru búnar að æfa sig frá áramótum og sigruðu sig sjálfar með göngunni. Enn er hægt að styrkja Lífskraft í gegnum söfnun göngunnar en öll áheit renna óskipt til krabbameinsdeildar Landspítala. 

„Auðvitað hvetjum við alla til þess að leggja okkur lið. Það er fáheyrt að það leggi svona margir í hóp af stað í svona ofboðslega erfiða ferð. Ganga á Hvannadalshnúk er talin á meðal erfiðustu dagleiða í Evrópu,“ segir Brynhildur.

Hægt er að styrkja söfn­un­ina með því að leggja inn á reikn­ing 1161-26-9900, kt. 501219-0290, eða með því að senda á síma­núm­erið 789-4010 í AUR-app­inu.

Einnig er mögu­legt að styðja við Lífs­kraft með því að senda SMS í síma­núm­erið 1900.

* Sendið text­ann LIF1000 fyr­ir 1.000 kr.
* Sendið text­ann LIF3000 fyr­ir 3.000 kr.
* Sendið text­ann LIF5000 fyr­ir 5.000 kr.
* Sendið text­ann LIF10000 fyr­ir 10.000 kr.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert