Ef við gerum okkar er allt hægt

Guðrún Arnardóttir skoraði sitt fyrsta landsliðsmark í kvöld.
Guðrún Arnardóttir skoraði sitt fyrsta landsliðsmark í kvöld. AFP

Varnarmaðurinn Guðrún Arnardóttir skoraði sitt fyrsta landsliðsmark er íslenska kvennalandsliðið í fótbolta vann 4:0-stórsigur á útivelli gegn Kýpur í undankeppni HM. Þrátt fyrir stórsigur var Guðrún ekki kampakát með frammistöðuna.

„Við vorum með yfirhöndina en samt ekki með gæðin í því sem við vorum að gera. Við getum gert það mikið betur. Við vorum með stjórn á leiknum og náðum í stigin sem við ætluðum okkur,“ sagði Guðrún á blaðamannafundi eftir leik.

Guðrún skoraði markið fjórða mark leiksins með skalla á stuttu færi eftir að Karólína Lea Vilhjálmsdóttir skaut í slánna úr aukaspyrnu af löngu færi. „Við sögðum Karó að setja hann á markið. Svo vorum við tilbúnar í frákastið og það datt svona skemmtilega fyrir mig. Það var auðveldur eftirleikur,“ sagði hún um markið.  

Ísland er í fínni stöðu í C-riðli og með örlögin í eigin höndum. Vinni liðið þá leiki sem eftir eru fer það á sitt fyrsta heimsmeistaramót. „Við viljum vera í bílstjórasætinu og ætlum okkur að gera það. Við tökum einn leik í einu. Ef við gerum okkar er allt hægt,“ sagði Guðrún.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert