Bauðst til að segja af sér vegna sambands við konu

Michel Aupetit erkibiskup Parísar hefur boðist til að segja af …
Michel Aupetit erkibiskup Parísar hefur boðist til að segja af sér. AFP

Michel Aupetit, erkibiskup Parísar, hefur boðist til að stíga til hliðar úr embætti í kjölfar þess að fjölmiðlar fóru að vekja athygli á „óljósu“ sambandi hans við konu.

„Hann átti í samskiptum við manneskju sem hann er afar náinn,“ sagði talskona biskupsdæmisins en bætti þó við að sambandið hefði hvorki verið kynferðislegs eðlis né ástarsamband.

Ekki játning, einungis tillaga

Kaþólskir prestar eru bundnir skírlífi samkvæmt hugmyndafræði kirkjunnar og eiga því að halda sig frá hvers kyns kynferðislegu athæfi.

Aupetit hafði verið í samskiptum við páfann fyrr í vikunni þar sem hann bauðst til að segja af sér. Samkvæmt talskonu biskupsdæmisins var tillaga erkibiskupsins ekki sektarjátning heldur hefði þetta verið auðmjúk uppástunga af hans hálfu.

Kaþólska kirkjan í Frakklandi hefur átt undir högg að sækja síðustu vikur en í október birtist umfangsmikil skýrsla sem greindi frá því að þúsundir barnaníðinga hefðu starfað innan stofnunarinnar frá árinu 1950. Telja fórnarlömbin hundruð þúsunda.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert