Handbolti

Viktori og félögum mistókst að komast á toppinn | Kristján skoraði fimm í tapi

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Viktor Gísli Hallgrímsson og félagar gátu komist á toppinn með sigri í kvöld.
Viktor Gísli Hallgrímsson og félagar gátu komist á toppinn með sigri í kvöld. VÍSIR/VILHELM

Viktor Gísli Hallgrímsson og félagar hans í Nantes þurftu að sætta sig við jafntefli er liðið tók á móti Nimes í frönsku úrvalsdeildinni í handbolta í kvöld. Lokatölur 28-28, en sigur hefði komið Nantes í toppsæti deildarinnar.

Viktor og félagar eru í harðri baráttu við Montpellier og PSG um franska meistaratitilinn, en fyrir leik kvöldsins var Nantes einu stigi á eftir toppliðunum tveim.

Viktor Gísli lék stóran hluta leiksins í marki heimamanna og varði alls sjö skot af 23 sem komu á markið, þar af tvö víti.

Liðið þurfti hins vegar að sætta sig við súrt jafntefli, 28-28, og Nantes er nú með 48 stig þegar tveir leikir eru eftir. Liðið er með jafn mörg stig og Montpellier og PSG í fyrsta til þriðja sæti, en PSG trónir á toppnum og á leik til góða.

Á sama tíma máttu Kristján Örn Kristjánsson og félagar hans í PAUC þola þriggja marka tap gegn Istres, 32-29. Kristján Örn var næst markahæstur í liði PAUC með fimm mörk, en liðið situr í áttunda sæti deildarinnar með 24 stig þegar tvær umferðir eru eftir.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×