Ómar átti þátt í þrettán mörkum

Ómar Ingi Magnússon.
Ómar Ingi Magnússon. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Ómar Ingi Magnússon átti beinan þátt í þrettán mörkum þegar Magdeburg vann Wetzlar í efstu deild þýska handboltans í kvöld. 

Magdeburg vann 30:26 eftir jafnan leik en Ómar lagði mikið af mörkum á lokasprettinum. Þegar síðari hálfleikur var liðlega hálfnaður hafði hann skorað 3 mörk og gefið 3 stoðsendingar. En þegar uppi var staðið skoraði Ómar 7 mörk og gaf 6 stoðsendingar. Gísli Kristjánsson er byrjaður að leika án ný eftir axlarmeiðsli og kom við sögu hjá Magdeburg en skoraði ekki. 

Íslendingaliðið Melsungen tapaði nokkuð illa á heimavelli fyrir Füchse Berlín 25:33 en Guðmundur Þ. Guðmundsson stýrir Melsungen. Elvar Örn Jónsson skoraði 3 mörk og gaf 4 stoðsendingar. Arnar Freyr Arnarsson skoraði 1 mark og vann boltann einu sinni en Alexander Petersson skoraði ekki. Hann gekk í raðir Melsungen í sumar. 

Andri Már Rúnarsson leikur með Stuttgart.
Andri Már Rúnarsson leikur með Stuttgart. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Bjarki Már Elísson hafði óvenju hljótt um sig og skoraði 1 mark þegar Lemgo tapaði fyrir Leipzig á heimavelli 26:27. 

Andri Már Rúnarsson er að stimpla sig inn í efstu deild og skoraði 2 mörk fyrir Stuttgart sem tapaði fyrir Göppingen 27:34. Viggó Kristjánsson er frá vegna meiðsla hjá Stuttgart. Janus Daði Smárason skoraði 1 mark, gaf eina stoðsendingu og vann boltann einu sinni fyrir Göppingen. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert