Enski boltinn

„Ég fer í bann ef ég segi hvað mér finnst“

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Mikel Arteta var augljóslega ekki sáttur við dómgæsluna í kvöld.
Mikel Arteta var augljóslega ekki sáttur við dómgæsluna í kvöld. James Williamson - AMA/Getty Images

Mikel Arteta, knattspyrnustjóri Arsenal, var allt annað en sáttur eftir tapið gegn erkifjendum liðsins í Tottenham í ensku úrvalsdeildinni í fótbolta í kvöld.

„Ég get ekki gefið ykkur hreinskilið svar af því að þá fer ég í langt bann. Ég vill helst vera heiðarlegur, en ég get ekki verið það núna,“ sagði foxillur Arteta í leikslok.

Eins og líklega flestir stuðningsmenn Arsenal þá vildi Arteta helst gleyma þessum leik og horfa frekar til framtíðar.

„Ég er svo stoltur af mínum leikmönnum. Þessi leikur er búinn, við töpuðum og við sættum okkur við það. Nú einbeitum við okkur að Newcastle.“

Í leik kvöldsins voru tvö atvik sem höfðu mikil áhrif á útkomu hans. Annars vegar fengu heimamenn í Tottenham vítaspyrnu sem Harry Kane skoraði úr eftir um tuttugu mínútna leik og hins vegar var Rob Holding sendur af velli með sitt annað gula spjald á 33. eftir brot á Heung-Min Son.

„Ég veit það ekki. Þessi ákvörðun var tekin og leikurinn er farinn,“ sagði Spánverjinn um vítaspyrnudóminn, en hann var ekki jafn rólegur þegar hann var spurður út í rauða spjaldið.

„Ég fer í bann ef ég segi hvað mér finnst. En ég held að þið getið alveg lesið það á líkamstjáningu minni.“

Þrátt fyrir slæmt tap gegn erkifjendunum sagði Arteta þó að það væri lítið mál að koma mönnum aftur í gírinn fyrir næsta leik.

„Ég er búinn að því nú þegar. Þessi leikur er búinn og nú einbeitum við okkur bara að Newcastle. Ég sagði þeim hversu stoltur ég væri af þeim og að ef við gerum það sama á móti Newcastle og við gerðum fyrsta hálftíman hér í kvöld þá verður þetta í góðu lagi,“ sagði Arteta að lokum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×