Valur upp að hlið Stjörnunnar og Víkings

Leiknismaðurinn Mikkel Jakobsen með boltann í kvöld. Birkir Már Sævarsson …
Leiknismaðurinn Mikkel Jakobsen með boltann í kvöld. Birkir Már Sævarsson og Orri Hrafn Kjartansson fylgjast grannt með. mbl.is/Hákon Pálsson

Valur hafði betur gegn Leikni úr Reykjavík, 2:1, í leik liðanna í 10. umferð Bestu deildar karla í knattspyrnu á Origo-vellinum í kvöld. Leiknir náði forystunni en Valsmönnum tókst að snúa taflinu við.

Leikurinn fór afar rólega af stað en eftir tæplega stundarfjórðung færðist fjör í leikana.

Á 14. mínútu kom Mikkel Dahl gestunum úr Leikni í forystu. Emil Berger átti þá glæsilega sendingu fram völlinn á Mikkel Jakobsen sem hafði nægt pláss á vinstri kantinum, renndi boltanum þvert fyrir markið á Dahl sem kom boltanum í netið af stuttu færi.

Skömmu áður hafði hann skotið framhjá af stuttu færi úr fyrsta skoti leiksins.

Aðeins tveimur mínútum eftir að Dahl skoraði var Valur hins vegar búinn að jafna metin.

Birkir Már Sævarsson tók þá á rás, fór framhjá tveimur Leiknismönnum, lagði boltann á Orra Hrafn Kjartansson, sem renndi honum jafnharðan aftur inn fyrir á Birki Má sem lagði boltann út á Arnór Smárason sem stýrði honum snyrtilega niður í fjærhornið.

Eftir mörkin tvö voru Valsmenn sterkari aðilinn og fengu nokkur kjörin tækifæri til þess að ná forystunni.

Arnór komst nálægt því að skora öðru sinni en skaut naumlega yfir markið rétt innan vítateigs, skalli Hauks Páls Sigurðssonar af stuttu færi fór yfir markið og næst komst varamaðurinn Patrick Pedersen því að skora en skalli hans úr miðjum teignum fór í utanverða stöngina.

Staðan því 1:1 í leikhléi.

Síðari hálfleikurinn var tíðindalítill til að byrja með en Valur náði forystunni í fyrsta skipti í leiknum á 65. mínútu þegar fyrsta færi hálfleiksins leit dagsins ljós.

Kristófer Konráðsson í liði Leiknis tapaði þá boltanum á miðjunni, Arnór kom boltanum til hliðar á Pedersen sem átti magnaða viðstöðulausa sendingu á lofti inn fyrir á Tryggva Hrafn Haraldsson sem var sloppinn aleinn í gegn, rak boltann til hliðar og renndi honum svo á milli fóta Viktors Freys Sigurðssonar sem var kominn langt út úr marki sínu.

Ekki gerðist mikið eftir markið en Berger átti þó frábæra tilraun beint úr aukaspyrnu á 71. mínútu sem Guy Smit varði laglega aftur fyrir.

Að lokum sigldu Valsmenn því góðum endurkomusigri í höfn og hafa þar með unnið tvo leiki í röð í deildinni.

Valur færir sig upp um sæti, fer úr fimmta sæti upp í það fjórða og er nú með 19 stig, jafnmörg og Víkingur úr Reykjavík og Stjarnan í sætunum fyrir ofan og átta stigum á eftir toppliði Breiðabliks.

Leiknir heldur kyrru fyrir í ellefta og næstneðsta sæti þar sem liðið er aðeins með 4 stig, fjórum stigum frá öruggu sæti.

Valur 2:1 Leiknir R. opna loka
90. mín. Emil Berger (Leiknir R.) á skot framhjá Skotið úr aukaspyrnunni hátt yfir markið.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert