Hoffell, nýtt uppsjávarskip Loðnuvinnslunnar í Fáskrúðafirði, kom í heimahöfn með tvö þúsund tonn af kolmunna aðfararnótt laugardags. Á vef Loðnuvinnslunnar segir að þetta hafi verið fyrsti kolmunnatúr þessa nýja skips sem fékk nafn forvera síns sem átti marga slíka túra að baki.

Í brúnni stóð nýr skipstjóri vaktina. Smári Einarsson hefur verið á sjó frá unga aldri. Hann byrjaði á Hoffelli SU 80 í október árið 2005. Var það að vísu annað skip en það sem ber nafnið núna en Smári hefur verið í áhöfn þriggja skipa með þessu fallega nafni. En sú skemmtilega hefð hefur skapast hjá Loðnuvinnslunni, líkt og áður hjá móðurfélagi þess Kaupfélaginu, að nefna fleyin eftir fjöllum sem standa vörð um Fáskrúðsfjörð.

Passlega stressaður

Smári er 35 ára gamall og aðspurður sagði hann að hann hefði nú ekki endilega dreymt um að verða sjómaður þegar hann var lítill drengur, en einhvern veginn hefði það legið beint við þar sem sjómennska er stór atvinnugrein í fjölskyldunni. „Pabbi, afi og stjúpi minn voru sjómenn,“ segir Smári.

Hann hóf nám í Tækniskólanum til þess að læra til skipstjórnar, stundaði hann námið með vinnu og lauk því árið 2020. Nú starfar hann sem fyrsti stýrimaður á Hoffelli sem hefur það í för með sér að leysa skipstjórann af þegar hann bregður sér frá.

Smári Einarsson, skipstjóri á Hoffelli SU.
Smári Einarsson, skipstjóri á Hoffelli SU.

Þegar Smári var inntur eftir því hvernig fyrsti skipstjóratúrinn hefði gengið sagði hann að það hefði gengið vel.

„Ég var bara passlega stressaður og þetta var gaman,“ bætir hann við. Veðrið var ekki að leika við sjófarendur þessa daga sem Hoffellið var í sínum fyrsta kolmunnatúr.

„Það var leiðindaveður og bræla á köflum,“ segir Smári. „En það gekk samt mjög vel að veiða og frábært að koma að landi með vel kældan og ferskan afla í þessu magni."

Smári segir að samstarfsfélagarnir um borð hafi tekið honum afar vel í nýju hlutverki. „Við þekkjumst vel og höfum unnið lengi saman“ .

Þegar skip skiptir frá einum veiðum í aðra líkt og Hoffell gerði á dögunum þegar síldveiðum var hætt og stefnan tekin á kolmunna, þá þarf að skipta um veiðarfæri. Smári skipstjóri byrjaði því á því að fara til Færeyja til þess að skipta út trolli og því næst var farið á miðin.