Þriðjungi færri starfandi í ferðaþjónustu

Þriðjungi færri störfuðu í ferðaþjónustu í júlí í ár en …
Þriðjungi færri störfuðu í ferðaþjónustu í júlí í ár en í fyrra. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Alls voru 33% færri á launaskrá í einkennandi greinum ferðaþjónustunnar í júlí en í sama mánuði í fyrra. Þetta kemur fram í tölum frá Hagstofunni sem gefnar voru út í dag. Starfsfólki fjölgaði þó um 4% milli júní og júlí.

Mest var fækkunin milli ára hjá gististöðum, 44%, og í flokki ferðaskrifstofa, ferðaskipuleggjenda og annarrar bókunarþjónustu, 43%.

Sé litið til heildarlaunagreiðslna í einkennandi greinum ferðaþjónustunnar drógust þær saman um 31% milli júlí í ár og júlí í fyrra, og námu í mánuðinum um 10 milljörðum króna. Jukust launagreiðslur þó um 10% milli júní og júlí í ár.

Upplýsingarnar eru hluti af tilraunatölfræði um staðgreiðsluskyldar launagreiðslur og talnaefni um fjölda starfandi samkvæmt skrám. Vakin er athygli á því á heimasíðu Hagstofunnar að um bráðabirgðatölur sé að ræða, sem geta tekið breytingum yfir tíma svo sem vegna síðbúinna skila launagreiðenda.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert