Þriggja ára fannst á lífi eftir fjóra sólarhringa

Pilturinn var undir eftirliti lækna í Houston í Texas eftir …
Pilturinn var undir eftirliti lækna í Houston í Texas eftir að hann fannst sl. laugardag. Hann er nú kominn aftur heim til sín, heill heilsu. AFP

Þriggja ára gamall drengur í Texas í Bandaríkjunum fannst á lífi eftir að hafa verið týndur í skóglendi skammt frá heimili sínu í fjóra sólarhringa. Móðir drengsins segir að um kraftaverk sé að ræða. 

Pilturinn, Christopher Ramirez, sneri aftur heim til sín eftir að hafa verið skoðaður á sjúkrahúsi í Houston, en hann var þar undir eftirliti eftir að hann fannst heill á húfi á laugardag. 

„Ég á ekki til orð til að lýsa því hvernig mér leið þegar ég sá barnið mitt,“ sagði móðir hans, Araceli Nuñez, við blaðamenn síðdegis í gær. Þetta kemur fram í frétt AP-fréttastofunnar. 

„Ég bara faðmaði hann og sagði að ég elskaði hann; elskaði hann af öllu hjarta.“

Spurð hvort þetta væri kraftaverki líkast sagði hún: „Engin spurning, þetta er kraftaverk.“

Ráfaði af stað og hvarf

Ramirez hvarf sporlaust á miðvikudaginn þegar hann hafði verið að leika sér við fjölskylduhundinn í garðinum sínum skammt frá Plantersville, sem er um 100 km norðvestur af Houston. Hann ráfaði af stað og var skömmu síðar hvergi sjáanlegur. 

Barnið fannst svo á laugardag skammt frá því leitarsvæði þar sem lögregla og björgunarsveitir höfðu lag megináherslu á. Lögreglustjórinn í Grimes-sýslu segir að þar hafi verið á ferðinni maður sem ákvað að taka þátt í leitinni eftir að hafa heyrt af hvarfi drengsins í Biblíutíma. Drengurinn var búinn að missa mikinn vökva en leið að öðru leyti vel að sögn lögreglu. 

Ekki hefur verið upplýst um það hvernig barnið þraukaði einn og óstuddur í fjóra sólarhringa, en lögreglan telur þó ekki að neinn hafi numið drenginn á brott. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert