Valsmenn segja umræðuna um miðamál ekki rétta

Áhorfendur Tindastóls voru ósáttir í gærkvöldi þegar uppselt var orðið …
Áhorfendur Tindastóls voru ósáttir í gærkvöldi þegar uppselt var orðið á þriðja leik liðsins gegn Val. Ljósmynd/Jóhann Helgi Sigmarsson

Mikil umræða hefur skapast á samfélagsmiðlum fyrir þriðja leik Vals og Tindastóls í úrslitaeinvígi Íslandsmótsins í körfubolta karla varðandi miðasölu á leikinn.

Stuðningsfólk Tindastóls ætlaði þá að kaupa sér miða strax að öðrum leik loknum í gærkvöldi en komu að tómum kofa, allir miðar uppseldir. Umræða fór þá af stað um að mögulega væri ekki allt með felldu og að færri miðar hefðu verið settir í sölu til útiliðsins en reglur kveða á um. 

Blaðamaður mbl.is heyrði í forráðamönnum félaganna og mótastjóra KKÍ varðandi málið. 

Snorri Arnaldsson, mótastjóri KKÍ, segir málið ekki vera komið inn á borð sambandsins að því sem hann best veit. Reglurnar séu þannig að útilið hafi rétt á 30% af miðum sem settir séu í sölu á leikinn og þurfi að kaupa þá af heimaliðinu. KKÍ skipti sér ekki af þeim málum nema að upp komi ágreiningur.

Þetta er alls ekki rétt

Forráðamaður Vals sagði í samtali við blaðamann að miðasalan hafi farið fram í gær og þar af  hafi 30% verið sérstaklega merktir Tindastóli. Umræðan um að færri miðar hefðu farið í sölu væri einfaldlega ekki rétt. Sagði hann jafnframt að Origo-höllin tæki um 1.500 manns í sæti og samkvæmt útreikningum blaðamanns þýðir það að miðafjöldi Tindastóls hafi verið í kringum 450.

Dagur Þór Baldvinsson formaður körfuknattleiksdeildar Tindastóls sagði málið ekki vera komið lengra af þeirra hálfu en að fyrirspurn hafi verið send á formann Vals. Vel geti verið að þeir 450 miðar sem Tindastóll eigi rétt á hafi selst upp á svo stuttum tíma í gær, svo mikil sé stemningin. Hann sagðist þó auðvitað ekki hafa neinar sölutölur í höndunum og líklega kæmi þetta allt saman í ljós á leiknum.

Þriðji leikur liðanna fer fram á fimmtudag í Origo-höllinni á Hlíðarenda. Eitt er víst að eftirspurnin eftir miðum er gríðarleg og verða vonbrigðin mikil ef húsið verður ekki smekkfullt.

Úr öðrum leik liðanna í gærkvöldi. Hjálmar Stefánsson reynir að …
Úr öðrum leik liðanna í gærkvöldi. Hjálmar Stefánsson reynir að kasta boltanum á Pablo Bertone. Pétur Rúnar Birgisson fylgist með. Ljósmynd/Jóhann Helgi Sigmarsson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert