Krafði KSÍ um afsökunarbeiðni og hótar bótamáli

Kolbeinn Sigþórsson, landsliðsmaður Íslands í knattspyrnu.
Kolbeinn Sigþórsson, landsliðsmaður Íslands í knattspyrnu. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Kolbeinn Sigþórsson, landsliðsmaður Íslands í knattspyrnu og leikmaður Gautaborgar í Svíþjóð, krafði fráfarandi stjórn KSÍ um formlega afsökunarbeiðni eftir að honum var meinað að taka þátt í síðasta landsliðsverkefni Íslands sem fram fór í byrjun september.

Þetta kom fram í bréfi sem Hörður Felix Harðarson, lögmaður Kolbeins, sendi KSÍ í byrjun september, en 433.is greindi fyrst frá málinu.

„Umbjóðandi minn, Kolbeinn Sigþórsson, hefur falið mér að gæta hagsmuna sinna gagnvart KSÍ vegna þeirra stöðu sem upp er komin í kjölfar ákvörðunar stjórnar sambandsins um að taka hann úr landsliðshópi,“ segir í bréfi Harðar sem hann sendi KSÍ hinn 7. september.

Stjórn KSÍ tók þá ákvörðun 29. ágúst að taka Kolbein úr landsliðshópnum eftir að tvær konur stigu fram og sökuðu hann um meint ofbeldi sem átti sér stað á skemmtistað í Reykjavík sumarið 2017.

Guðni Bergsson sagði af sér sem formaður KSÍ eftir að …
Guðni Bergsson sagði af sér sem formaður KSÍ eftir að mál Kolbeins komst á flug í fjölmiðlum. mbl.is/Kristinn Magnússon

Margvíslegar rangfærslur ætlaðra þolenda

„Af fjölmiðlaumfjöllun verður ráðið að þessa ákvörðun megi rekja til þess að kona steig fram og gagnrýndi fráfarandi formann fyrir að greina ekki rétt frá atvikum í sjónvarpsviðtali. Vísaði hún þar til þess að formaðurinn, og reyndar fleiri starfsmenn KSÍ, hafi verið upplýstir um atvik sem upp kom á árinu 2017 og tengdist henni,“ segir meðal annars í bréfi Harðar en þar tekur hann skýrt fram að stjórn KSÍ hafi haft vitneskju um málið frá árinu 2018 en þrátt fyrir það hafi Kolbeinn verið reglulega valinn í landsliðið síðan.

„Af fjölmiðlaumfjöllun undanfarinna daga má sjá að ætlaðir þolendur í þessu máli hafa farið fram með margvíslegar rangfærslur, bæði um eðli ætlaðra brota og um tildrög þess að sátt komst á í málinu. Ljóst er að sannleikurinn um þau atvik er þeim alls ekki hagfelldur. Þetta hefði stjórn KSÍ getað kannað með því einu að leita skýringa eða afstöðu Kolbeins áður en tekin var ákvörðun um að víkja honum úr landsliðinu,“ segir Hörður ennfremur.

Mikil fjölmiðlaumræða hefur skapast í kringum mál Kolbeins.
Mikil fjölmiðlaumræða hefur skapast í kringum mál Kolbeins. mbl.is/Árni Sæberg

Alvarlegar afleiðingar fyrir Kolbein

Hörður ítrekar í bréfi sínu að fjölmiðlaumfjöllun um málefni Kolbeins hafi haft umtalsverðar afleiðingar.

„Afleiðingar þessa fyrir umbjóðanda minn eru nú þegar umtalsverðar. Frá því að stjórn KSÍ tók ákvörðun um að víkja Kolbeini úr landsliðshópnum, og spyrða þannig nafn hans saman við ætlaða „nauðgunarmenningu“ innan KSÍ, hefur verið um hann fjallað í 738 greinum í fjölmiðlum um allan heim. Sú umfjöllun er nær alfarið neikvæð enda tengist hún ætlaðri ofbeldismenningu innan KSÍ og umbjóðandi minn sá eini sem nafngreindur er í því sambandi. Á Íslandi eru greinarnar orðnar 194, 131 grein í Bandaríkjunum, 77 í Svíþjóð, 55 í Rúmeníu, 40 í Frakklandi, 30 í Sviss, 30 í Bretlandi, 13 í Portúgal og 13 á Spáni.“

Samkvæmt alþjóðlegum stöðlum er umfjöllunarvirði þessara greina ekki minna en 4,9 milljónir USD eða um 625 milljónir íslenskra króna. Ljóst er að umbjóðandi minn hefur engin tök á að rétta hlut sinn í þessari umfjöllun og orðsporsskaðinn því gríðarlegur. Þá er rétt að geta þess að fréttum um umbjóðanda minn hefur verið deilt 3500 sinnum á samfélagsmiðlinum Facebook, 794 sinnum á Reddit og 194 sinnum á Twitter nú þegar. Ekki er séð fyrir endann á þessari umfjöllun.“

Stjórn KSÍ ætlar ekki að biðja leikmanninn afsökunar.
Stjórn KSÍ ætlar ekki að biðja leikmanninn afsökunar. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Áskilur sér rétt til fjártjónsbóta

Þá krefst leikmaðurinn þess að KSÍ biðjist afsökunar á framferði sínu, ellegar gæti Knattspyrnusambandið þurft að greiða honum skaðabætur vegna málsins.

„Umbjóðandi minn skorar á stjórn KSÍ að draga fyrri ákvörðun til baka og koma opinberlega á framfæri afsökunarbeiðni til umbjóðanda míns. Að öðrum kosti er ljóst að umbjóðandi minn mun verða fyrir enn frekari skaða og hugsanlega missa tekjuöflunarhæfi sitt að fullu. Mikilvægt er að ákvörðun um þetta efni verði hraðað og komið á framfæri með áberandi hætti í fjölmiðlum.“

Umbjóðandi minn verður óhjákvæmilega að áskilja sér allan rétt til miska- og fjártjónsbóta, ekki síst ef hlutur hans verður ekki réttur hið fyrsta,“ segir Hörður ennfremur í bréfi sínu til stjórnar KSÍ.

Aðgerðarhópurinn Öfgar mótmælti þöggun og meðvirkni með meintum gerendum innan …
Aðgerðarhópurinn Öfgar mótmælti þöggun og meðvirkni með meintum gerendum innan KSÍ fyrir utan höfuðstöðvar sambandsins á dögunum. mbl.is/Kristinn Magnússon

Munu ekki biðjast afsökunar

Í skriflegu svari Óskars Sigurðssonar, lögmanns LEX sem KSÍ fól að svara fyrir sína hönd, kemur skýrt fram að sambandið muni ekki biðjast afsökunar á því að hafa meinað leikmanninum að taka þátt í verkefninu.

Óskar leggur þunga áherslu á að stjórn KSÍ hafni því að ákvörðun hafi verið orsök þeirra umfjöllunar sem mál Kolbeins fékk í samfélaginu og fjölmiðlum. Sú umræði hafi þegar verið farin af stað og stjórnin hafi þurft að bregðast við henni.

Þá bendir Óskar á að um afar sérstakar og krefjandi aðstæður hafi verið að ræða og mikilvægt hafi verið að bregðast hratt við. Stjórn KSÍ telji ekki neina ástæðu til að draga umrædda ákvörðun til baka eða biðja Kolbein afsökunar á henni.

Umfjöllun 433.is um málið má lesa með því að smella hér.

Kolbeinn Sigþórsson er markahæsti leikmaður í sögu karlalandsliðsins ásamt Eiði …
Kolbeinn Sigþórsson er markahæsti leikmaður í sögu karlalandsliðsins ásamt Eiði Smára Guðjohnsen. mbl.is/Eggert Jóhannesson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert