Arnar hættur með Gróttu

Arnar Daði Arnarsson lætur í sér heyra á hliðarlínunni í …
Arnar Daði Arnarsson lætur í sér heyra á hliðarlínunni í leik á liðnu tímabili. Ljósmynd/Þórir Tryggvason

Arnar Daði Arnarsson hefur látið af störfum sem aðalþjálfari karlaliðs Gróttu í handknattleik.

Þetta tilkynnti hann á Facebook-síðu sinni í dag.

„Það er með miklum trega sem ég hef tekið þá ákvörðun að stíga til hliðar sem þjálfari meistaraflokks Gróttu eftir þriggja ára veru.

Það var einstakt tækifæri að vera ráðinn þjálfari meistaraflokks Gróttu einungis 26 ára að aldri. Ég tók þessu verkefni alls ekki sem gefnum hlut og fór alla leið í verkefnið. En allt tekur einhverntímann enda,“ skrifaði Arnar Daði meðal annars.

Hann tók við Gróttu fyrir þremur árum og stýrði liðinu upp úr næstefstu deild í fyrstu tilraun. Undanfarin tvö ár hefur Arnar Daði svo haldið Gróttu uppi í úrvalsdeild og gott betur enda var liðið til að mynda hársbreidd frá því að komast í úrslitakeppnina á liðnu tímabili.

„Fyrst hófst þetta í Grill66-deildinni með Gunnari Andréssyni sem aðstoðarmann. Síðustu tvö ár hefur Maksim Akbachev verið mér til aðstoðar. Báðum þakka ég innilega fyrir samstarfið auk allra hinna sem hafa komið að liðinu.

Þegar ég hugsa til baka þá finnst mér eins og það séu töluvert meira en þrjú ár síðan ég og Gunni tókum slaginn í Grill66-deildinni. Það lýsir því kannski best að margt hefur gerst frá þeim tíma bæði innan og utan vallar hjá liðinu og klukkutímarnir sem hafa farið í þetta eru óteljandi,“ skrifaði Arnar Daði einnig.

Um ástæðu þess að Arnar Daði hættir núna skrifaði hann: Nú er svo komið að bensín tankurinn minn virðist vera orðinn hálf tómur og gott betur en það. Nú stefni ég á að setja handboltann aðeins til hliðar og reyna ná áttum. Það verður fróðlegt að sjá hvernig mér mun til takast en það er markmiðið í dag.

Færslu hans má sjá í heild sinni hér:

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert