Annar Íslendingur til Mílanó?

Svava Rós Guðmundsdóttir gæti verið á leið til Ítalíu.
Svava Rós Guðmundsdóttir gæti verið á leið til Ítalíu. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Svava Rós Guðmundsdóttir, landsliðskona í knattspyrnu, er sögð á leið til ítalska stórveldisins AC Milan, þar sem hún myndi hitta fyrir liðsfélaga sinn í A-landsliði kvenna, Guðnýju Árnadóttur.

Tutto Calcio Femminile, ítalskur knattspyrnuvefur tileinkaður kvennaboltanum, greinir frá því að AC Milan íhugi það nú alvarlega að semja við Svövu Rós.

Undir lok síðasta árs fékk hún samningi sínum við franska 1. deildarfélagið Bordeaux rift eftir að hafa lítið sem ekkert fengið að spila á tímabilinu.

Svövu Rós er því frjálst að semja við nýtt félag.

Svava Rós er 26 ára gamall sóknarmaður sem á 30 A-landsleiki að baki. Hefur hún skorað tvö mörk í þeim.

Varnarmaðurinn Guðný er sem áður segir á mála hjá AC Milan og þá er varnarmaðurinn Anna Björk Kristjánsdóttir leikmaður erkifjendanna og nágrannanna í Internazionale.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert