Flottur árangur Íslendinga á NM - Kolbeinn undir Íslandsmeti

Kolbeinn Höður Gunnarsson hljóp á 10,29 sekúndum í 100 metra …
Kolbeinn Höður Gunnarsson hljóp á 10,29 sekúndum í 100 metra hlaupinu í aðeins of miklum meðvindi til að fá það staðfest sem Íslandsmet. mbl.is/Óttar Geirsson

Íslensku keppendurnir á Norðurlandamótinu í frjálsum íþróttum stóðu sig vel á fyrri keppnisdegi mótsins sem fram fór í Kaupmannahöfn í dag.

Við sögðum frá því fyrr í dag að Daníel Ingi Egilsson, FH, vann þrístökkskeppnina þegar hann stórbætti árangur sinn og stökk 15,98 metra.

Kolbeinn Höður Gunnarsson, FH, hljóp langt undir Íslandsmetinu í 100 metra hlaupi þegar hann lenti í 2. sæti á tímanum 10,29 sekúndur. Of mikill meðvindur var til þess að það yrði staðfest sem Íslandsmet, en Íslandsmet Ara Braga Kárasonar í greininni er 10,51 sekúndur.

Þetta er í annað sinn á aðeins fimm dögum sem Kolbeinn nær betri tíma en Íslandsmetið, í of miklum meðvindi, en hann hljóp í vikunni á 10,37 sekúndum.

Hilmar Örn Jónsson, FH, lenti í 2. sæti í sleggjukasti en hann kastaði 73,28 metra.

Hafdís Sigurðardóttir, UFA, endaði í 4. sæti í langstökki en hún stökk lengst 6,22 metra.

Guðbjörg Jóna Bjarnadóttir, ÍR, lenti í 4. sæti í 100 metra hlaupi en hún hljóp á tímanum 11,73 sek.

Þá var Hlynur Andrésson, ÍR, dæmdur úr leik í 5.000 metra hlaupi.

Seinni keppnisdagurinn fer fram á morgun og mun mbl.is flytja fréttir af árangri Íslendinganna á mótinu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert