„Við eigum von á því að Seðlabankinn eigi eftir hálfa prósentu af vaxtahækkunum í þessari hækkunarlotu. Stóra spurningin í okkar huga er svo hvort við fáum alla þá 50 punkta í næstu viku eða hvort þeim verði skipt milli næstu tveggja funda,“ segir Jón Bjarki Bentsson, aðalhagfræðingur Íslandsbanka, og bendir á að óvenju stutt sé milli funda samanborið við flesta aðra yfir árið.

Bankinn gaf út uppfærða þjóðhagsspá síðastliðinn miðvikudagsmorgunn og gerir nú ráð fyrir að meiri þróttur verði í innlendri eftirspurn en áður var úrlit fyrir, og verðbólgan að sama skapi meiri.

„Það er hægt að finna rök fyrir hvoru tveggja: Ef nefndin sammælist um að vextir þurfi að fara svo hátt upp er lítil ástæða til að bíða. Illu er best aflokið og auðvitað betra fyrir virkni peningastefnunnar að sú skoðun þeirra komi þá sem fyrst fram í eiginlegum vöxtum.“

Vextirnir farnir að bíta

Hin hliðin sem nefndin gæti litið til sé að ýmislegt bendi þrátt fyrir allt til þess að verðbólga taki að hjaðna á næstunni að óbreyttu. „Það virðist nú eitt og annað vera að koma á daginn sem sýnir að vaxtahækkanirnar hingað til hafi áhrif,“ segir hann og nefnir snöggkólnun fasteignamarkaðarins, sem hefur nú ekki hækkað að ráði frá því í haust.

„Svo er það auðvitað kortaveltan, sem gefur okkur góða vísbendingu um þróun einkaneyslu og hefur verið að vaxa mun hægar á seinni helmingi síðasta árs en misserin á undan. Ef þau horfa meira í þetta gætu það verið rök fyrir því að sjá aðeins hvað setur og hvort þessir kraftar séu að ágerast,“ segir Jón Bjarki og á þar við kraft stýrivaxtahækkana síðasta árs.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaði vikunnar.