Á leið í vel borgað starf í Dubai

Milos Milojevic er á leið í nýtt starf.
Milos Milojevic er á leið í nýtt starf. mbl.is/Hákon

Knattspyrnuþjálfarinn Milos Milojevic, fyrrverandi þjálfari Víkings og Breiðabliks, er á leið til Sameinuðu arabísku furstadæmanna til að taka við liði Al Wasl í Dubai.

Þetta segir Aftonbladet í Svíþjóð en Milos er á förum frá Rauðu stjörnunni í Serbíu eftir vel heppnað tímabil þar sem liðið varð meistari undir hans stjórn með miklum yfirburðum og tapaði ekki einum einasta af 37 leikjum sínum í deildinni.

Samkvæmt Aftonbladet fær Milos 30 milljónir sænskra króna í árslaun hjá Al Wasl, eða tæplega 400 milljónir íslenskra króna.

Al Wasl hafnaði í fjórða sæti á nýliðnu keppnistímabili í Sameinuðu arabísku furstadæmunum.

Milos var búsettur á Íslandi í tólf ár en fór til Mjällby í Svíþjóð árið 2018, var aðstoðarþjálfari Rauðu stjörnunnar 2019-21, fór þá aftur til Svíþjóðar og þjálfaði Hammarby og Malmö en sneri aftur til serbneska liðsins sem aðalþjálfari eftir að honum var sagt upp hjá Malmö í lok júlí á síðasta ári.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert