Enski boltinn

Guardiola kallar eftir niðurstöðu svo fólk hætti að tala

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Pep Guardiola kyssir verðlaunapeninginn sem hann fékk eftir sigur Manchester City í ensku úrvalsdeildinni.
Pep Guardiola kyssir verðlaunapeninginn sem hann fékk eftir sigur Manchester City í ensku úrvalsdeildinni. Ap/Jon Super

Pep Guardiola, knattspyrnustjóri Manchester City, vonast eftir því að kærurnar gegn félaginu fái flýtimeðferð og að við fáum niðurstöðu sem fyrst.

Nýkrýndir Englandsmeistarar Manchester City eru með 115 kærur yfir sér fyrir brot á rekstrareglum ensku úrvalsdeildarinnar.

Kærurnar voru gerðar opinberar í febrúar síðastliðnum en þær koma til vegna þess sem gerðist á árunum 2009 til 2018. City var líka sakað um að aðstoða ekki við rannsóknina sem hófst í desember 2018.

City heldur fram sakleysi sínu í þessu máli og telja sig geta sannað það með óhrekjanlegum sönnunargögnum. City fólk segist líka hlakka til að geta klárað þetta mál endanlega.

Íþróttadómstóllinn sneri við tveggja ára banni á félagið í Evrópukeppnum sem UEFA dæmdi City í árið 2020 en City fékk engu að síður tíu milljónir evra í sekt fyrir að hindra rannsókn málsins.

Pep Guardiola var að gera City að Englandsmeisturum í fimmta sinn á síðustu sex árum en liðið mætir Brighton í kvöld í leik sem liðið átti inni.

„Það sem ég vil sjá að gerist er að enska úrvalsdeildin og dómararnir geti komist að niðurstöðu eins fljótt og auðið er. Þá, ef að við gerðum eitthvað rangt, vita það allir en ef við gerðum hlutina á réttan hátt, eins og við höfum trúað í mörg ár, þá mun fólk hætta að tala um þetta,“ sagði Pep Guardiola.

„Ég myndi elska að sjá niðurstöðu á morgun. Það væri jafnvel enn betra að fá hana strax í kvöld. Vonandi eru menn ekki svo uppteknir, dómararnir geta hlustað á báða aðila og ákveðið hvað sé besta að gera. Þegar upp er staðið þá vitum við að við höfum unnið á sanngjarnan hátt inn á vellinum og efumst ekki um sakleysi félagsins,“ sagði Guardiola.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×