Fer hvergi þótt liðið falli

Abdoulaye Doucouré leikur áfram með Everton.
Abdoulaye Doucouré leikur áfram með Everton. AFP/Peter Powell

Everton ætlar ekki að missa miðjumanninn Abdoulaye Doucouré frá sér í sumar, þótt liðið myndi falla úr ensku úrvalsdeildinni í knattspyrnu í vor.

Everton tilkynnti í dag að félagið hefði virkjað ákvæði í samningi Doucouré um að framlengja hann um eitt ár og að hann væri nú samningsbundinn til sumarsins 2024.

Doucouré er þrítugur og kom til Everton frá Watford fyrir þremur árum. Hann hefur leikið 212 deildaleiki með ensku liðunum tveimur og skorað í þeim 25 mörk. Doucouré er fæddur og uppalinn í Frakklandi og lék með öllum yngri landsliðunum þar en gerðist á síðasta ári landsliðsmaður Malí en foreldrar hans eru þaðan.

Everton er í mikilli fallhættu fyrir lokaumferð deildarinnar næsta sunnudag. Liðið er þó tveimur stigum fyrir ofan fallsæti og er í baráttu við Leicester og Leeds. 

Everton á heimaleik við Bournemouth og sendir bæði Leicester og Leeds niður með sigri. Jafntefli nægir Everton ef Leicester tekst ekki að vinna West Ham og Leeds vinnur ekki Tottenham með meira en tveggja marka mun.

Tapi Everton fyrir Bournemouth verður liðið að treysta á að hvorki Leicester né Leeds vinni sína leiki.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert