Enski boltinn

Guardiola baunar á Evra og Berbatov: „Rústuðum þeim í úrslitaleik Meistaradeildarinnar“

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Pep Guardiola hafði engan húmor fyrir skotum Evra og Berbetov.
Pep Guardiola hafði engan húmor fyrir skotum Evra og Berbetov. Massimiliano Ferraro/NurPhoto via Getty Images

Pep Guardiola tók til varna og skaut föstum skotum í átt að fyrrverandi leikmönnum Manchester United sem hafa gagnrýnt lið Manchester City að undanförnu.

Margir lögðu orð í belg og gagnrýndu City eftir að liðið féll úr leik fyrir Real Madrid í undanúrslitum Meistaradeildar Evrópu. Meðal þeirra voru gömlu United-mennirnir Patrice Evra og Dimitar Berbatov en þeir skutu á hugarfar City-manna og leiðtogahæfni þeirra, eða skort á henni öllu heldur.

„Manchester City þarf leiðtoga en Guardiola vill ekki hafa leiðtoga. Hann vill ekki persónuleika. Hann er leiðtoginn. Þeir hafa engan á vellinum til að hjálpa þeim,“ sagði Evra. Berbatov tók í sama streng og sagði að jafn gott lið og City ætti ekki fá á sig tvö mörk á jafn mörgum mínútum undir lok leiks eins og strákarnir hans Guardiolas gerðu gegn Real Madrid.

Guardiola var spurður út í þessa gagnrýni á blaðamannafundi og svaraði heldur betur fyrir sig. Hann stráði meðal annars salti í sár Evras og Berbatovs með því að rifja upp úrslitaleik Meistaradeildarinnar 2011 þar sem Barcelona, undir stjórn Guardiolas, vann öruggan sigur á United, 3-1.

„Ég sá ekki þennan persónuleika þegar við rústuðum þeim í úrslitaleik Meistaradeildarinnar,“ sagði Guardiola og ítrekaði að það vantaði ekkert upp á karakter eða persónuleika í lið City.

Strákarnir hans Guardiolas geta farið langt með að tryggja sér Englandsmeistaratitilinn með því að vinna West Ham United á útivelli á sunnudaginn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×