„Betra liðið vann í kvöld“

Gunnar Magnús Jónsson, þjálfari Keflavíkur.
Gunnar Magnús Jónsson, þjálfari Keflavíkur. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Gunnar Magnús Jónsson, þjálfari Keflavíkur, var vitanlega svekktur með 0:3 tapið gegn Þrótti úr Reykjavík í úrvalsdeild kvenna í knattspyrnu í kvöld og sagði frammistöðuna með þeim síðri sem liðið hefði sýnt undanfarið.

„Það eru bara vonbrigði, það eru alltaf vonbrigði að tapa fótboltaleik. Fyrst og síðast er það erfitt fyrir lið í okkar stöðu að fá mark á sig svona snemma í leiknum. Við vildum koma sterkari inn í síðari hálfleik en þá var það sama, við fáum annað kjaftshögg á okkur þar með marki strax og þá var þetta alltaf á brattann að sækja,“ sagði Gunnar Magnús í samtali við mbl.is eftir leik.

Eins og hann bendir á fékk Keflavík á sig mark bæði í upphafi fyrri hálfleiks og síðari hálfleiks. Spurður hvað hafi valdið því sagði Gunnar Magnús:

„Það var kannski smá færslumisskilningur í gangi. Við vorum búin að leggja svolítið upp með ákveðnar færslur og leikmenn fóru úr stöðum. Við það opnaðist vængurinn í fyrsta markinu en í hinum tveimur mörkunum eru það bara góð skot utan af velli. Mörk breyta leikjum og þau gerðu það svo sannarlega í dag.“

Svolítið mikið stöngin út

Keflavík er í næstneðsta sæti deildarinnar, tveimur stigum frá öruggu sæti. Hvað þarf liðið að laga til þess að spyrna sér frá botnbaráttunni?

„Leikur okkar hefur bara verið nokkuð góður undanfarið. Þetta var kannski sísti leikurinn okkar undanfarið. Þetta hefur verið svolítið mikið stöngin út hjá okkur og við náttúrulega sköpum okkur okkar eigin heppni og þurfum að vinna fyrir henni. En betra liðið vann í kvöld, ég get alveg skrifað undir það

Við þurfum bara að halda áfram og berjast fyrir okkar lífi í þessari deild og við gerum okkur grein fyrir því að við erum ekki í neitt allt of góðri stöðu. Við gerum okkur líka grein fyrir því að það er nóg af stigum eftir í pottinum og við þurfum bara að fara að vinna fótboltaleiki. Með því að vinna leiki eykst sjálfstraust og það er vonandi að það fari að detta,“ sagði hann.

Liðið mun ekki bæta við fleiri leikmönnum í þessum leikmannaglugga, enda kveðst Gunnar Magnús sáttur við leikmannahópinn.

„Þessi hópur, þetta eru flottar stelpur og ég hef gríðarlega trú á þeim. Við öll sem erum í kringum félagið ætlum okkur að halda sæti okkar í deildinni. Við þurfum að leggja á okkur til þess og við munum gera það,“ sagði hann að lokum í samtali við mbl.is.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert