Ég er með leikmenn sem þora ekki að skjóta á markið

Elín Klara Þorkelsdóttir, leikmaður Hauka, tekur nöfnu sína, Elínu Rósu …
Elín Klara Þorkelsdóttir, leikmaður Hauka, tekur nöfnu sína, Elínu Rósu Magnúsdóttur, leikmann Vals, föstum tökum í leiknum í kvöld. mbl.is/Árni Sæberg

Díana Guðjónsdóttir, þjálfari Hauka, var vonsvikin eftir tap gegn Val, 28:19, í undanúrslitum bikarkeppni kvenna í handbolta í Laugardalshöll í kvöld.

„Þetta var bara drullulélegur leikur að okkar hálfu.“

Haukar voru í vandræðum bæði varnar- og sóknarlega mest allan leikinn og sagði Díana að það hefði ekki verið eitthvað eitt sem hefði farið úrskeiðis, heldur allt. 

Vörn Vals í leiknum var mjög öflug og virtust Haukakonur finna fá svör.

„Nei þetta kom okkur ekkert á óvart. Þær eru búnar að spila þennan varnarleik allt tímabilið og á meðan ég er með leikmenn sem þora ekki að skjóta á markið þá spila þær flata 6-0 vörn og gera það vel. En við verðum náttúrlega að þora að skjóta.“

Elín Klara Þorkelsdóttir var langbesti leikmaður Hauka í leiknum en hún skoraði níu mörk. Framlag vantaði þó frá fleiri leikmönnum svo Haukar hefðu tækifæri til að ná árangri. 

„Þetta á að vera lið, ekki einstaklingur. Hún gerir ansi margt en það þurfa aðrir að fylgja með.“

Díana Guðjónsdóttir (til hægri), þjálfari Hauka.
Díana Guðjónsdóttir (til hægri), þjálfari Hauka. Ljósmynd/Kristín Hallgrímsdóttir
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert