Andlát: Pálmi Stefánsson í Tónabúðinni

Pálmi Stefánsson.
Pálmi Stefánsson.

Pálmi Stefánsson, tónlistarmaður og stofnandi Tónabúðarinnar á Akureyri, lést á Sjúkrahúsinu á Akureyri 15. júlí, 84 ára að aldri.

Hann fæddist 3. september 1936 á Litlu-Hámundarstöðum á Árskógsströnd. Foreldrar hans voru Anna Þorsteinsdóttir húsfreyja og Stefán Einarsson, bóndi, sjómaður og smiður.

Pálmi var á barnsaldri þegar hann hóf að leika á harmóníku fyrir dansi heima á Árskógsströnd. Eftir að Pálmi flutti til Akureyrar stofnaði hann eigin hljómsveit. Hann var síðar hljómsveitarstjóri Póló sem starfaði 1964-1969 og naut mikilla vinsælda. Póló gaf út 14 lög.

Pálmi stofnaði Tónabúðina 1966 og seldi þar hljómplötur, hljóðfæri, sjónvörp og fleira. Tónabúðin flutti sjálf inn hljómplöturnar vegna þess að flestir plötuinnflytjendur og íslenskir útgefendur voru samningsbundnir annarri verslun á Akureyri.

Tónabúðin stofnaði eigin hljómplötuútgáfu, Tónaútgáfuna, 1967. Fyrstu plötur hennar voru með Póló og Bjarka og Póló og Erlu. Alls gaf Tónaútgáfan út um 60 hljómplötur. Sumar þeirra voru hljóðritaðar erlendis eins og Lifun, hljómplata Trúbrots, og Þótt líði ár og öld, með Björgvini Halldórssyni, sem báðar komu út 1971. Einnig voru gefnar út plötur með vinsælum flytjendum eins og Flowers, Ævintýri og Ragnari Bjarnasyni. Þá gaf Tónaútgáfan út fyrstu íslensku safnplötuna, Pop Festival '70. Tónaútgáfan setti upp hljóðver á Akureyri 1974. Pálmi rak Tónabúðina í yfir 40 ár þar til hún var seld 2007.

Pálmi var virkur í tónlistarlífinu í um sjö áratugi og á seinni árum lék hann reglulega fyrir eldri borgara á Akureyri ásamt félögum sínum.

Eftirlifandi eiginkona Pálma er Soffía Kristín Jónsdóttir. Börn þeirra eru Haukur, Björk og Anna Berglind. Barnabörnin eru níu.

Útför Pálma verður gerð frá Glerárkirkju þriðjudaginn 27. júlí kl. 11.00.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert