Öflug upphitun Þjóðverja fyrir EM

Kai Havertz og Thomas Müller fagna Serge Gnabry eftir að …
Kai Havertz og Thomas Müller fagna Serge Gnabry eftir að hann skoraði fimmta mark Þjóðverja í kvöld. AFP

Þjóðverjar koma sjóðheitir til leiks á Evrópumóti karla í knattspyrnu eftir að hafa unnið stórsigur í síðasta leik sínum fyrir mótið, vináttulandsleik gegn Lettlandi í Düsseldorf í kvöld, en þar urðu lokatölur 7:1.

Þjóðverjar skutu Lettana á bólakaf strax í fyrri hálfleik en staðan var 5:0 að honum loknum. Robin Gosens, Ilkay Gündogen, Thomas Müller og Serge Gnabry skoruðu sitt markið hver og Lettar gerðu auk þess sjálfsmark.

Timo Werner kom Þjóðverjum í 6:0 á 50. mínútu en Aleksejs Saveljevs lagaði stöðuna fyrir  Letta með marki á 75. mínútu. En aðeins mínútu síðar skoraði Leroy Sané sjöunda markið, 7:1.

Þjóðverjar mæta Frökkum í fyrsta leik sínum á EM eftir átta daga, 15. júní, og leika svo við Portúgal 19. júní og Ungverjaland 23. júní en allir leikir þeirra í riðlinum fara fram í München.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert