Spiluðu jafnvel hægar en við bjuggumst við

Ómar Ingi Magnússon einbeittur í leiknum í kvöld.
Ómar Ingi Magnússon einbeittur í leiknum í kvöld. Ljósmynd/Szilvia Micheller

Hægri skyttan Ómar Ingi Magnússon var ánægður með frammistöðu Íslands þegar liðið vann góðan 28:24-sigur á Portúgal í fyrsta leik liðanna á EM 2022 í Búdapest í Ungverjalandi í kvöld.

„Þetta var klassa frammistaða hjá liðinu og við erum sáttir. Ég held bara að heilt yfir hafi þetta verið flottur leikur þar sem við vorum nokkuð stöðugir allan tímann,“ sagði Ómar Ingi í samtali við RÚV eftir leik.

Spurður hvort eitthvað hafi komið íslenska liðinu á óvart þegar kom að leik Portúgals sagði hann:

„Nei, þetta var allt eins og við bjuggumst við fyrir utan það að þeir spiluðu kannski hægar en við héldum. Þeir voru svolítið að drepa þetta og labba fram og aftur. Við hefðum kannski getað keyrt aðeins meira á þá, verið aðeins skarpari í því en annars var þetta svona svipað og við bjuggumst við.“

Sóknarleikurinn var afar góður í leiknum en það sem lagði grunninn að sigrinum, sem var fremur þægilegur þegar upp var staðið, var sterkur varnarleikur.

„Ég held að 14:10 hafi verið klassastaða miðað við tempóið í leiknum. Þeir löbbuðu allan tímann. Þetta var gott bæði varnar- og sóknarlega,“ sagði Ómar Ingi.

Íslenska liðið spilaði síðast landsleik í maí á síðasta ári en það kom þó ekkert að sök í kvöld.

„Nei, nei. Við erum búnir að nýta tímann vel og búnir að æfa vel. Við erum bara einbeittir og klárir og kláruðum verkefnið í dag,“ bætti hann við og sagðist vona að sigur kvöldsins yrði upphafið að góðu ferðalagi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert