Íslendingur má flytja lífeyri til stofnana ESB

Maðurinn starfaði hjá Flugöryggisstofnun Evrópu.
Maðurinn starfaði hjá Flugöryggisstofnun Evrópu. AFP

Eftirlitsstofnun EFTA hefur sent frá sér rökstutt álit í kjölfar þess að Íslendingi var synjað um flutning á starfstengdum lífeyri sem áunnin var á Íslandi til stofnana ESB. Íslendingurinn hafði unnið hjá Flugöryggisstofnun Evrópu sem fer með öryggi og umhverfisvernd í flugsamgöngum á EES svæðinu.   

Þetta kemur fram í tilkynningu frá ESA, eftirlitsstofnun EFTA.  

„Ísland, Liechtenstein og Noregur hafa verið aðilar að Flugöryggisstofnun Evrópu (EASA) frá upphafi en hún hefur umsjón með öryggi og umhverfisvernd í flugsamgöngum á EES svæðinu. Reglugerð EASA hefur verið tekin upp í EES-samninginn sem gerir íbúum EEA EFTA ríkjanna kleift að starfa hjá stofnununni. Í reglugerðinni er einnig kveðið á um að starfsmannareglur ESB skuli gilda um starfsfólk stofnunarinnar.

ESA hóf rannsókn árið 2019 í kjölfar kvörtunar frá íslenskum ríkisborgara sem starfaði hjá EASA.

Í rökstuddu áliti sínu kemst ESA að þeirri niðurstöðu að með því að neita að flytja lífeyri áunninn á Íslandi til lífeyrissjóðs stofnana ESB (PSEUI), hafi Ísland ekki uppfyllt skuldbindingar sínar samkvæmt  EES-samningnum í tengslum við EASA reglugerðina. Rökstutt álit ESA kemur í kjölfar formlegs áminningarbréfs sem var sent til Íslands í febrúar 2021.
 
Synjun á flutningi lífeyris setur hlutaðeigandi einstaklinga í verri stöðu miðað við samstarfsfélaga þeirra frá öðrum EES ríkjum. Slík synjun er þar af leiðandi líkleg til að hindra eða draga úr líkum þess að einstaklingar nýti réttinn til frjálsrar farar sem EES samningurinn tryggir.
 
„Í þessu máli reynir á mikilvæga lögfræðilega spurningu, þannig að niðurstaða þess getur haft fordæmisgildi um túlkun EES-samningsins,“ sagði Stefan Barriga, fulltrúi yfirstjórnar ESA. „Með þessu máli leitast ESA við að túlka EES-samninginn og stuðla þannig að auknum skýrleika.“
 
Rökstutt álit er annað skrefið í formlegu brotaferli ESA gegn Íslandi. Íslensk stjórnvöld hafa nú tvo mánuði til að koma sjónarmiðum sínum á framfæri og að því loknu getur ESA ákveðið hvort vísa eigi málinu til EFTA dómstólsins,“ segir í tilkynningu. 
 
Álitið má nálgast hér

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert