Bylgja heimilisofbeldis vegna faraldursins möguleg

Tilfellum um heimilisofbeldi sem upphófst í faraldri kórónuveirunnar mun ef …
Tilfellum um heimilisofbeldi sem upphófst í faraldri kórónuveirunnar mun ef til vill ekki rata á borð Kvennaathvarfsins fyrr en eftir langan tíma. mbl.is/G.Rúnar

Samkvæmt bráðabirgðatölum ríkislögreglustjóra jókst heimilisofbeldi á seinasta ári frá því á árunum á undan, en þó ekki umfram það sem búast hefði mátt við miðað við umfjöllun um vandamálið tengt faraldrinum. Þannig var jöfn stígandi í tilfellum heimilisofbeldis frá árinu 2015 og til ársins í fyrra.

Í fyrra var lögreglu tilkynnt um 1.110 tilfelli heimilisofbeldis samanborði við 956 tilfelli árið 2019.

Sigþrúður Guðmundsdóttir, framkvæmdastýra Kvennaathvarfsins, segir að þær tölur séu ef til vill fljótandi og gefi ekki endilega skýra mynd af því heimilisofbeldi sem raunverulega á sér stað í samfélaginu. Hún segir mega gera ráð fyrir tilkynningum um heimilisofbeldi á næstu árum, sem upphófust eða ágerðust vegna kórónuveirufaraldursins.

„Við grípum mjög seint allar sveiflur sem verða,“ segir Sigþrúður í samtali við mbl.is.

„Þannig að aukning í aðsókn hjá okkur þýðir ekki endilega aukningu í heimilisofbeldi.“

Og öfugt, í raun og veru, enda segir Sigþrúður að heimilisofbeldi sé ekki tilkynnt alltaf um leið og það byrjar. Oftar en ekki á tilkynning um heimilisofbeldi sér langan aðdraganda og því segir hún að gera megi ráð fyrir bylgju tilkynninga vegna ofbeldis sem hófst vegna faraldursins.

„Heimilisofbeldi er auðvitað af því tagi að konur leita kannski seint til Kvennaathvarfsins, það hefur kannski mikið gengið á í mjög langan tíma þar til kona segir frá því sem er að gerast inni á heimilinu, þannig að opinberar tölur geta þannig líka verið svolítið fljótandi.

Við gætum kannski séð einhverja bylgju þá frekar eftir lengri tíma. Það getur verið að það komi bylgja, já á næsta ári, eða eftir fimm ár, það er ómögulegt að segja.“

Sigþrúður Guðmundsdóttir, framkvæmdastýra Kvennaathvarfsins.
Sigþrúður Guðmundsdóttir, framkvæmdastýra Kvennaathvarfsins. mbl.is/Kristinn Magnússon

Faraldurinn hefur margvísleg áhrif

Sigþrúður segir að margar hugmyndir um afleiðingar faraldursins á heimilisofbeldi hafi sprottið upp. Faraldurinn geti haft víðtæk og margvísleg áhrif sem fólki dettur ekki í hug að geti átt sér stað í fyrstu. Bæði geti faraldurinn og áhrif hans ýtt undir heimilisofbeldi en líka gert konum kleift að komast burt úr ofbeldissamböndum.

„Það sem gerðist á síðasta ári, þessi heimsfaraldur og það sem hann hafði í för með sér, ýtti að öllum líkindum undir heimilisofbeldi. Það sem hann gerði sennilega líka að verkum er að konur hafi síður leitað í burtu, bæði vegna streitu og afkomuótta í kjölfar atvinnumissis og slíkt,“ segir Sigþrúður og bætir við að börn hafi einnig verið mikið heima með foreldrum sínum, sérstaklega í fyrstu bylgju faraldursins, og þannig hafi þurft tvo til að halda heimili.

„Þannig að það sem má kannski segja að hafi ýtt undir heimilisofbeldi var líka hindrun í því að konur færu að heiman.“

Hins vegar segir Sigþrúður að mögulega geti verið að konur hafi notið góðs af því að losnaði um á húsnæðismarkaði vegna faraldursins. Húsnæði sem annars hefði verið leigt til erlendra ferðamanna stóð autt og bauðst Íslendingum gjarnan á lægra verði en verið hafði.

„Svo getur líka verið að einhverjar konur hafi slitið sínu sambandi án þess að koma í Kvennaathvarfið vegna þess hve mikið losnaði um á húsnæðismarkaði. Konur sem slitu sambandi og hefðu leitað í athvarfið slitu kannski sambandi og leituðu í leiguhúsnæði eða eitthvað slíkt.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert