Dómur yfirdeildar Mannréttindadómstóls Evrópu (MDE), í máli Guðmundar Andra Ástráðssonar gegn ríkinu, virðist við fyrstu sýn eyða óvissunni sem uppi var um Landsrétt, starfsemi hans og dóma sem rétturinn hafði kveðið upp. Dómurinn vekur aftur á móti upp spurningar um hlutverk og stöðu dómstóla gagnvart öðrum handhöfum ríkisvaldsins.

Dómurinn, sem kveðinn var upp á þriðjudag, það er á sjálfan fullveldisdaginn, staðfesti niðurstöðu undirdeildar MDE frá því í mars í fyrra. Niðurstaða dómaranna sautján var einróma um að við skipan Landsréttar sumarið 2017 hefði laga ekki verið gætt og að í því hefði falist brot á réttinum til úrlausnar mála fyrir dómi sem skipaður er lögum samkvæmt. Ekki var tekið til sérstakrar skoðunar hvort málsmeðferð fyrir dóminum hefði verið réttlát en hvað það varðar skilaði hluti dómara séráliti.

Hér verður gert ráð fyrir því að lesendur séu sæmilega kunnugir aðdraganda málsins, það er annmörkum á áliti dómnefndar um hæfni umsækjenda um stöðurnar fimmtán, ófullnægjandi rökstuðningi þáverandi dómsmálaráðherra, Sigríðar Á. Andersen, fyrir breytingum á listanum og staðfestingu Alþingis á lista hennar. Enn fremur tveimur dómum Hæstaréttar í desember 2017 í málum tveggja umsækjenda sem ráðherra ákvað að skipa ekki, dómi Hæstaréttar sem síðar varð að málinu fyrir MDE og að endingu fyrri dóminum í Strassborg.

Þríþætt próf kynnt til sögunnar

Dómurinn nú staðfestir að vissu leyti það sem áður var vitað en er athyglisverður fyrir nokkurra hluta sakir. Fyrir það fyrsta kynnir hann til sögunnar þríþætt próf sem dómstólar aðildarríkja Mannréttindasáttmála Evrópu (MSE) þurfa að standast til að geta talist skipaðir lögum samkvæmt (e. tribunal established by law). Að svo búnu máli er kannað hvort málsmeðferðin við skipan Landsréttar 2017 hafi staðist prófið sem lagt var fyrir 2020.

Í fyrsta lagi þarf að hafa átt sér stað bersýnilegt brot gegn lögum, í öðru lagi þarf brotið að vera gegn kjarna réttindanna, það er ekki nægir að um tæknilegt atriði sé að ræða, og í þriðja lagi þurfa dómstólar að hafa vanrækt skyldu sína til að máta málið við ákvæði sáttmálans. Réttaröryggissjónarmið hnígi til þess að þrátt fyrir annmarka við skipun dómstóls eða dómara sé réttarframkvæmd stöðug og því sé ekki mikill tími sem megi líða frá því að brot á sér stað og þar til dómur um slíkt liggi fyrir. Að því leyti megi líkja málinu við steypu, eftir að hráefnum hafi verið blandað saman sé unnt að velta þeim til í ákveðinn tíma en að endingu taki hún á sig fast form.

MDE hróflar ekki við því mati Hæstaréttar að þáverandi dómsmálaráðherra hafi brotið stjórnsýslulög í málinu. Það brot hafi farið á svig við kjarna réttarins um að dómstóll skuli skipaður lögum samkvæmt og að sakborningur í málinu, sem var játningarmál vegna umferðarlagabrota, hafi mátt hafa efasemdir um að réttindi sín væru tryggð. Staðfesting þingsins á listanum, þar sem atkvæðagreiðsla var ekki í samræmi við bráðabirgðaákvæði dómstólalaga, hafi styrkt það brot en tekið er fram að hefði það verið eini annmarki málsins þá hefði það ekki dugað til að ríkið félli á prófinu. Hæstiréttur komst síðan að þeirri niðurstöðu að lög hefðu verið brotin, dæmdi umsækjendum bætur en lét það að mestu ósnert að taka afstöðu til þess hvort með því væri verið að brjóta mannréttindi borgaranna. Þar séu á ferð grundvallarréttindi í lýðræðis- og réttarríkjum sem ekki gangi að séu látin óafskipt.

Rökstuðningur Hæstaréttar gagnrýndur

Frá uppkvaðningu dómsins hefur Viðskiptablaðið rætt við nokkurn fjölda lögfróðra einstaklinga og eru þeir flestir sammála um að umfjöllun MDE um síðasta atriðið, sem finna má í málsgreinum 273-289 í dómi réttarins, sé sérstaklega áhugaverð. Dómur yfirdeildarinnar hafi verið góður fyrir þær sakir að hann eyði að langstærstum hluta óvissu um fortíð og framtíð Landsréttar, sem fyrri dómur hafði kveikt, en á móti sé óljóst með hvaða hætti dómstólar muni bregðast við þeirri gagnrýni sem þeir fengu.

Áralöng og fastmótuð venja er fyrir því í íslenskum rétti að hafi lög verið brotin við skipan í embætti þá geti umsækjandi, sem brotið var gegn, sótt bætur til ríkisins. Kröfum um ógildingu eða innsetningu í embætti hefur aftur á móti verið vísað frá enda væru dómstólar ella að taka sér vald sem ekki er þeirra, nánar til tekið framkvæmdarvald. Í dómi sínum í „Landsréttarmálinu“, eftir að hafa komist að því í desember 2017 að stjórnsýslulög hafi verið brotin við skipan réttarins, sagði Hæstiréttur að dómararnir fimmtán hefðu allir uppfyllt skilyrði fyrir því að hljóta skipun og frá því að forseti Íslands undirritaði skipunarbréf þeirra hefðu þeir verið réttmætir handhafar dómsvalds.

MDE slær á puttana á Hæstarétti fyrir þetta, það er að niðurstaða dómsins hafi verið þögul um það hvort réttindi borgarans hefðu verið tryggð með slíkri túlkun. Sagði MDE að slík túlkun myndi í fyrsta lagi grafa undan hlutverki og möguleikum dómstóla að passa að aðrir handhafar framkvæmdarvalds virtu lög og mannréttindi í störfum sínum. Í öðru lagi þá hefði framganga dómsmálaráðherra í málinu ekki aðeins brotið gegn umsækjendunum fjórum heldur einnig gegn almenningi.

Hluti viðmælanda benti á það að mögulega hefði niðurstaðan í Strassborg getað orðið önnur ef rökstuðningur Hæstaréttar í máli Guðmundar Andra, hefði ekki verið jafn rýr og raun ber vitni. Aðrir bentu hins vegar á að það orðalag MDE sé nokkuð þekkt yfirskin frá réttinum og í raun til þess eins að fela það mat MDE að Hæstiréttur hefði með réttu átt að fella skipunina úr gildi.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .