Innlent

Varpaði akkeri og varnaði slysi

Stefán Ó. Jónsson skrifar
TF-GRO var send að Ingólfsgrunni í dag.
TF-GRO var send að Ingólfsgrunni í dag. Vísir/Vilhelm

Strandveiðibátur varð vélarvana við Ingólfsgrunn á Húnaflóa í dag. Talið er að hann hefði rekið á sker ef skipverji, sem var einn um borð, hefði ekki varpað út akkeri bátsins. 

Þyrla Landhelgisgæslunnar var kölluð til og annar strandveiðibátur í grendinni beðinn um að sigla á vettvang til aðstoðar. Þyrlan er í orðsendingu Gæslunnar sögð hafa komið á svæðið skömmu fyrir klukkan þrjú og fylgst með því þegar bilaði báturinn var tekinn í tog af strandveiðibátnum sem kom til aðstoðar. Vel á að hafa gengið að koma línu á milli bátanna en þeir halda nú á Drangsnes.

Landhelgisgæslan segir þetta hafa verið annað skiptið í dag sem óskað hefur verið eftir aðstoð þyrlusveitarinnar. Óskað hafi verið eftir þyrlu skömmu fyrir hádegi vegna manns í sjónum við Álftanes. Hann er hins vegar sagður hafa fundist um það leyti sem þyrlan var að hefja sig til flugs frá Reykjavíkurflugvelli.

Báturinn varð vélarvana á Húnaflóa.


Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×