Fíllinn Bora fæddi sjaldgæfa tvíbura

Fílsungatvíburar fæddust í norðurhluta Kenýa fyrr í vikunni en afar sjaldgæft er að fílar eignist fleiri en eitt afkvæmi í einu og gerist það ekki nema í 1% tilfella. Ekki hefur fengist staðfest að fíll hafi fætt tvíbura síðan árið 2006, að því er segir í frétt BBC.

Leiðsögumenn komu auga á ungana í Samburu þjóðgarðinum en annar unginn er kvenkyns og hinn karlkyns.

Í samtali við Reuters fréttastofuna sagði stofnandi góðgerðarfélagsins, Save the Elephants, Dr. Iain Douglas-Hamilton, að þetta væri mjög krítískur tími fyrir fílsungana þar sem fílsungatvíburarnir sem fæddust fyrir 15 árum hefðu ekki lifað af lengi eftir fæðingu. Hann bætti við að mæðurnar geta oft ekki framleitt næga mjólk til að fæða báða ungana.

Fíllinn Bora með ungana sína tvo.
Fíllinn Bora með ungana sína tvo. AFP

Afrískir fílar eru með lengsta meðgöngutíma allra spendýra. Þeir ganga með ungana sína í næstum 22 mánuði og fæða á fjögurra ára fresti.

Helsta ógnin sem steðjar að stofninum eru viðskipti með fílabein og búsvæðaeyðing sem hefur leitt til þess að fílar hafa verið settir á rauðan lista hjá Alþjóðlegu náttúruverndarsamtökunum yfir tegundir í útrýmingarhættu. Hins vegar hefur fílastofninn stækkað í Kenýa á undanförnum árum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert