„Heimavöllur er ekki mikill heimavöllur án áhorfenda“

Atli Sigurjónsson eftir leikinn í kvöld.
Atli Sigurjónsson eftir leikinn í kvöld. Ljósmynd/Kristinn Steinn Traustason

Atli Sigurjónsson, sóknartengiliður KR, sagði leiknum gegn Breiðabliki í úrvalsdeild karla í knattspyrnu, Pepsi Max-deildinni, í kvöld hafa svipað til síðustu leikja sem liðin hafa háð sín á milli, með einni mikilvægri undantekningu þó.

„Þetta var svipað og leikirnir hafa oft verið undanfarið við Breiðablik þar sem við höfum komist yfir og þeir síðan verið meira með boltann. Við hefðum mátt nýta skyndisóknir betur þótt við höfum kannski ekki fengið mjög mikið af þeim.

Við hefðum þurft að koma öðru marki á þá. Við svona héldum þeim ágætlega frá okkur en þetta var bara frábært mark hjá Höskuldi og erfitt að koma í veg fyrir það,“ sagði Atli í samtali við mbl.is eftir leik, en fyrir leikinn í kvöld hafði KR unnið síðustu fjóra leiki gegn Breiðabliki í deild og bikar.

Kjartan Henry Finnbogason kom KR yfir í upphafi síðari hálfleiks með laglegu skallamarki en um hann miðjan jafnaði Höskuldur Gunnlaugsson metin fyrir Breiðablik með þrumufleyg beint úr aukaspyrnu. Enduðu leikar því 1:1 og mistókst KR, líkt og Breiðabliki, því að saxa á forskot toppliðs Vals sem tapaði leik sínum í gær.

„Við hefðum viljað öll þrjú stigin til þess að komast nær þeim en eitt stig er ekkert alslæmt á móti mjög góðu Breiðabliksliði. Við komumst einu stigi nær þeim allavega. Við tökum þetta hægt og rólega,“ sagði Atli.

Ekki hefur gengið nægilega vel hjá KR-ingum að safna stigum á heimavelli í sumar og einu heimasigrarnir komið gegn Keflavík og ÍA, auk þess sem öll þrjú töp liðsins á tímabilinu í deildinni hafa komið þar. Af hverju ætli það sé?

„Ég held að þetta sé að fara að snúast við hjá okkur. Þetta verður auðveldara og auðveldara því meira sem við fjarlægjumst Covid og það koma fleiri áhorfendur. Þá verður þetta heimavöllur.

Heimavöllur er ekkert mikill heimavöllur án áhorfenda. Þetta er völlurinn okkar en það eru áhorfendur sem eru svona 90 prósent af þessum heimaleikjameðbyr sem maður fær og við erum að fara að snúa þessu við núna,“ sagði Atli að lokum í samtali við mbl.is, en afar vel mætt var í Vesturbæinn í kvöld.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert