Hæstiréttur sýknar Kópavog í Vatnsendamáli

Myndin var tekin við málflutninginn 26. apríl.
Myndin var tekin við málflutninginn 26. apríl. Ljósmynd/Hæstiréttur Íslands

Hæstiréttur hefur staðfest dóm Landsréttar í svokölluðu Vatnsendamáli, en Landsréttur sýknaði Kópavogsbæ af öllum kröfum hluta erfingja Sigurðar K. Hjaltested í júní árið 2022. Dómur féll nú á öðrum tímanum í dag.

Lögmenn gáfu ekki kost á viðtali eftir að dómur var kveðinn upp. 

Í málinu krafðist hluti erfingja Sigurðar K. Hjaltested Kópavogsbæ um að greiða dánarbúi Sigurðar 75 milljarða króna vegna eignarnáms á landi Vatnsenda árin 1992, 1998, 2000 og 2007.

Málið var flutt í Hæstarétti 26. apríl. Mál vegna jarðarinnar Vatnsenda á rætur að rekja til erfðaskrár sem gerð var árið 1938. Fjölmörg dómsmál hafa verið rekin vegna jarðarinnar og erfðaskrárinnar fyrir Hæstarétti á liðnum áratugum.

Árið 2020 sýknaði Héraðsdómur Reykjaness Kópavogsbæ af öllum kröfum hluta erfingjanna nema vegna eignarnámsins árið 2007 og var bænum gert að greiða dánarbúinu 968 milljónir króna. Málinu var áfrýjað til Landsréttar sem komst að þeirri niðurstöðu að sýkna bæri Kópavogsbæ af öllum kröfum hluta erfingja Sigurðar K. Hjaltested í júní árið 2022.

Á rætur að rekja til fjórða áratugar síðustu aldar

Sem fyrr segir hefur fjöldinn allur af dómum fallið sem tengjast eignarhaldi og umráðum yfir jörðinni. Deilan á rætur að rekja til fjórða áratugar síðustu aldar þegar Magnús Einarsson Hjaltested, föðurbróðir Sigurðar K. Hjaltested, arfleiddi hann að jörðinni. Sigurður lést árið 1966 og erfði sonarsonur hans, Þorsteinn Hjaltested, jörðina. Hæstiréttur komst að þeirri niðurstöðu árið 2013 að jörðin væri ekki réttmæt eign Þorsteins og systkina hans heldur dánarbús Sigurðar K. Hjaltested.

Hæstiréttur komst að þeirri niðurstöðu árið 2015 að ráðstafa ætti beinum eignarrétti að jörðinni til erfingja Sigurðar, en ekki sonarsonarins Þorsteins sem hefði óbeinan eignarrétt að jörðinni.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert