Það eiga allir að geta sofið rótt

Elín Björk Jónasdóttir, hóp­stjóri veðurþjón­ustu Veður­stofu Íslands, á fundi dagsins.
Elín Björk Jónasdóttir, hóp­stjóri veðurþjón­ustu Veður­stofu Íslands, á fundi dagsins. Ljósmynd/Almannavarnir

Elín Björk Jónasdóttir, hóp­stjóri veðurþjón­ustu Veður­stofu Íslands, segir að íbúar á Reykjanesi eigi að geta sofið rótt þótt þeir séu með eldgos nánast í bakgarðinum hjá sér. Veðurstofa Íslands haldi úti öflugri sólarhringsvakt. Skapist einhvers konar hætta verði íbúar látnir vita um leið í gegnum almannavarnir. 

„Þó að eldgos séu vissulega hættuleg og geti verið svolítið kvíðavaldandi jafnvel, eða maður geti orðið hræddur, þá er vakt á Veðurstofunni allan sólarhringinn þar sem er verið að fylgjast sérstaklega með þessu gosi. Þannig að ef það verða einhverjar breytingar, eða eitthvað gerist sem verður til þess að það verður hætta, t.d. í byggð, fer það ekkert fram hjá þeim sem eru á vakt og íbúar verða látnir vita í gegnum almannavarnir. Þannig að það eiga allir að geta sofið rótt þó að það sé eldgos, svona svo til í bakgarðinum,“ sagði Elín á upplýsingafundi almannavarna í dag. 

Hún fjallaði um þann viðbúnað sem Veðurstofa Íslands er með á vettvangi. Á svæðinu eru margir jarðmælar, sem mæla það hvernig jörðin hagar sér, sem og gas- og veðurmælar. „Allt þetta net hjálpar okkur að túlka og vita hverjar breytingarnar eru hverju sinni,“ sagði hún. 

Búið sé að setja upp veðurmæli á Fagradalsfjalli og Vegagerðin setti einnig upp slíkan mæli við Reykjanestá. Þessir mælar hjálpi til við að sjá betur hvernig gasmengunin dreifist um svæðið frá eldstöðinni. 

Elín bætti við að aðstæður við gosstöðvarnar nú séu aðrar en þær voru í upphafi. „Gasið kemur auðvitað bæði upp úr gígunum þar sem gýs en kemur líka frá hrauninu. Nú er hraunið orðið mjög útbreitt þannig að það er svolítið erfitt að eiga við að ætla að vera t.d. í skjóli neðarlega í einhverjum brekkum og vera í friði frá gasinu. Það er mjög mikilvægt núna, ætli fólk að skoða gosið, að vera svolítið uppi í brekkunum. Finna helst vindinn í bakið og vera tilbúið til þess að breyta um leið, ef þið farið að finna vind sérstaklega framan í ykkur.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert