Fótbolti

Landsliðsumræðan hafði engin áhrif á Albert sem skoraði tvö fyrir Genoa

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Albert Guðmundsson lét umræðuna um landsliðið ekki hafa áhrif á sig.
Albert Guðmundsson lét umræðuna um landsliðið ekki hafa áhrif á sig. Simone Arveda/Getty Images

Albert Guðmundsson skoraði tvö mörk fyrir Genoa er liðið vann góðan 3-0 útisigur gegn botnliði Brescia í ítölsku B-deildinni í fótbolta í dag.

Albert hefur verið mikið á milli tannana á fólki undanfarna daga eftir að hann var ekki valinn í íslenska landsliðshópinn fyrr í vikunni sem mætir Bosníu og Liechtenstein í undankeppni EM síðar í mánuðinum.

Íþróttafréttamaðurinn Guðmundur Benediktsson, faðir Alberts, var meðal þeirra sem blandaði sér í umræðuna eftir að hópurinn var kynntur. Guðmundur sendi frá sér yfirlýsingu þar sem hann sagðist ekki gera neina kröfu á það að Albert væri valinn í hópinn, en segist ekki lengur ætla að sitja á sér og fylgjast með endalausum árásum að heiðri og persónu Alberts úr fjarska.

Þá tjáði Albert Brynjar Ingason sig einnig um málið í hlaðvarpsþætti Dr. Football, og fyrrum landsliðsmaðurinn Eiður Smári Guðjohnsen lagði orð í belg á Twitter-síðu sinni þar sem hann virtist gera hálfgert grín að yfirlýsingu Guðmundar.

Vikan hefur því verið nokkuð stormasöm hjá knattspyrnumanninum Alberti, en hann lét það þó ekki á sig fá og skoraði tvö mörk fyrir Genoa er liðið vann öruggan 3-0 útisigur gegn Breschia í dag eins og áður segir. Albert tvöfaldaði forystu Genoa á 71. mínútu eftir að liðið hafði tekið forystuna undir lok fyrri hálfleiks og gulltryggði svo sigurinn með marki í uppbótartíma.

Genoa situr í öðru sæti ítölsku B-deildarinnar með 56 stig eftir 30 leiki, fimm stigum fyrir ofan Sudtirol sem situr í þriðja sæti og sjö stigum á eftir toppliði Frosinone. Albert og félagar eru því á góðri leið með að tryggja sér sæti í efstu deild á nýjan leik.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×