Sá besti vann sannfærandi sigur

Adam Peaty fagnar ólympíugullinu í Tókýó í morgun.
Adam Peaty fagnar ólympíugullinu í Tókýó í morgun. AFP

Adam Peaty varð í morgun fyrsti Bretinn í sögunni til að vinna gullverðlaun í sundi á tvennum Ólympíuleikum í röð þegar hann bar sigur úr býtum í 100 metra bringusundi karla í Tókýó.

Peaty sigraði á sannfærandi hátt í úrslitasundinu og fékk tímann 57,37 sekúndur sem er fimmti besti tími sögunnar í greininni. Þar á hann sjálfur sex bestu tímana og heimsmet hans frá 2019 er 56,88 sekúndur. Peaty, sem er 26 ára gamall, hefur bætt heimsmetið í greininni í þrettán skipti.

Arno Kamminga frá Hollandi varð annar á 58,00 sekúndum og fékk fyrstu verðlaun Hollendinga í sundi á leikunum í 17 ár. Bronsið fékk Nicolo Martinenghi frá Ítalíu á 58,33 sekúndum.

Margaret MacNeil frá Kanada fagnar sigri.
Margaret MacNeil frá Kanada fagnar sigri. AFP

Margaret MacNeil frá Kanada sigraði í 100 metra flugsundi kvenna á 55,59 sekúndum og setti Ameríkumet. Hún er 21 árs og varð heimsmeistari í greininni árið 2019. Zhang Yufei frá Kína, sem kom til leiks með besta tímann, varð önnur á 55,64 sekúndum og Emma McKeon frá Ástralíu fékk bronsið á 55,72 sekúndum.

Ariarne Titmus með gullverðlaunin í 400 metra skriðsundi kvenna.
Ariarne Titmus með gullverðlaunin í 400 metra skriðsundi kvenna. AFP

Ariarne Titmus frá Ástralíu varð ólympíumeistari í 400 metra skriðsundi og skákaði þar sigurvegaranum frá 2016, heimsmethafanum Katie Ledecky frá Bandaríkjunum. Titmus vann á 3:56,69 mínútum sem er næstbesti tími sögunnar í greininni en Ledecky synti á 3:57,36 mínútum. Bronsið fékk Li Bingjie frá Kína á 4:01,08 mínútum.

Bandaríkjamennirnir Caeleb Dressel, Blake Pieroni og Bowen Becker fagna þegar …
Bandaríkjamennirnir Caeleb Dressel, Blake Pieroni og Bowen Becker fagna þegar félagi þeirra Zach Apple kemur í mark og tryggir þeim ólympíugullið í 4x100 metra boðsundi. AFP

Loks sigraði sveit Bandaríkjanna af öryggi í 4x100 metra boðsundi karla, á undan Ítalíu og Ástralíu. Sigursveitina skipuðu Caleleb Dressel, Blake Pieroni, Bowen Becker og Zach Apple og þeir syntu á 3:08,97 mínútum, þriðja besta tíma sögunnar í greininni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert