Minnast þeirra sem létust á Patreksfirði

Krapaflóð féll yfir bæinn 22. janúar 1983.
Krapaflóð féll yfir bæinn 22. janúar 1983. mbl.is/Guðlaugur J. Albertsson

Fjörutíu ár verða á morgun liðin frá því að tvö krapaflóð féllu á Patreksfjörð. Kostuðu flóðin fjög­ur manns­líf.

Vegna þessa hefur verið boðað til minningarathafnar á Patreksfirði á morgun.

Ýtarlegar er fjallað um flóðin í Morgunblaðinu í dag.

Ganga að minnisvarðanum

Athöfnin hefst klukkan 14 í Patreksfjarðarkirkju, þar sem Séra Kristján Arason heldur minningarstund að viðstöddum Kristjáni Björnssyni vígslubiskupi. Tónlistarfólk af svæðinu flytur auk þess tónlistaratriði.

Klukkan 14.40 verður gengið að minnisvarða um þá sem létust, en viðbragðsaðilar verða í broddi fylkingar og lagður verður blómsveigur og kerti við minnisvarðann.

Klukkan 15.15 verður loks minningarathöfn í félagsheimili Patreksfjarðar. Þar taka til máls Úlfar Thoroddsen, fyrrverandi sveitarstjóri Patreksfjarðarhrepps, Þórdís Sif Sigurðardóttir, bæjarstjóri Vesturbyggðar, og Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands.

Að lokinni dagskrá býður slysavarnardeildin Unnur upp á kaffi og veitingar, að því er fram kemur í tilkynningu á vef Vesturbyggðar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert