Norðmenn fyrstir til að vinna Spánverja

Jorge Maqueda og Sander Sagosen í hörðum slag í kvöld.
Jorge Maqueda og Sander Sagosen í hörðum slag í kvöld. AFP

Noregur varð í kvöld fyrsta liðið til að vinna ríkjandi Evrópumeistara Spánar á EM karla í handbolta en lokatölur urðu 27:23 í Bratislava í Slóvakíu. Úrslitin þýða að Noregur, Spánn og Svíþjóð eru öll með sex stig og í mikilli baráttu um tvö efstu sætin í milliriðli II og sæti í undanúrslitum.

Sebastian Barthold skoraði sex mörk fyrir Norðmenn og fjórir samherjar hans gerðu fjögur hver. Jorge Maqueda skoraði sex fyrir Spánn og Aleix Gómez fimm.

Spánverjar eru áfram í fínum málum þar sem liðið mætir Póllandi í lokaleik sínum og nægir sigur en Pólland hefur enn ekki unnið leik í riðlinum. Svíþjóð og Noregur mætast í það sem gæti orðið hreinn úrslitaleikur um að fylgja Spánverjum í undanúrslit.

Nái Spánverjar ekki að vinna Pólland gætu Noregur og Svíþjóð bæði farið í undanúrslit, svo lengi sem Noregur vinnur ekki því þá fara Noregur og Spánn áfram. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert