Rekstrarniðurstaða 2 milljörðum verri en áætlað var

Heimsfaraldur og harður vetur leiddu til neikvæðrar rekstrarniðurstöðu.
Heimsfaraldur og harður vetur leiddu til neikvæðrar rekstrarniðurstöðu. mbl.is

Heimsfaraldur, snjóþyngsli, sértæk velferðarþjónusta og aukin fjármagnsgjöld vegna hækkandi verðbólgu settu strik í rekstur Reykjavíkurborgar á fyrstu þremur mánuðum ársins.

Fjármála- og áhættustýringarsvið Reykjavíkurborgar lagði í dag fram óendurskoðað rekstraruppgjör A-hluta fyrir tímabilið janúar til mars. Rekstrarniðurstaðan er neikvæð um 4.793 milljónir króna en áætlun gerði ráð fyrir að hún yrði neikvæð um 2.894 milljónir á tímabilinu.

Segir í tilkynningu að þetta skýrist af auknum launa- og rekstrarútgjöldum sem að hluta til má rekja til afleiðinga kórónuveirufaraldurs í upphafi árs, sem krafðist meiri mönnunar og yfirvinnu í velferðarþjónustu og skólastarfi en gert var ráð fyrir.

Vetrarþjónusta var 451 milljón yfir fjárheimildum vegna snjóþyngsla á tímabilinu og gjöld vegna vistunar barna með alvarlegar þroska- og geðraskanir voru 326 milljónum yfir fjárheimildum.

Þá voru fjármagnsgjöld að frádregnum fjármunatekjum 910 milljónum yfir fjárheimildum, einkum þar sem verðbólga er töluvert hærri en fjárhagsáætlun gerði ráð fyrir.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert