Dæmdur fyrir nauðgun er hann var 17 ára

Héraðsdómur Reykjaness.
Héraðsdómur Reykjaness. mbl.is/Ómar Óskarsson

Karlmaður var í gær dæmdur í 2 ára skilorðsbundið fangelsi fyrir nauðgun sem átti sér stað árið 2012, þegar hann var 17 ára og konan 16 ára.

Málið var kært sjö árum síðar auk þess sem rannsókn þess dróst úr hófi og því 10 ár liðin þegar dómur féll. Af þeim sökum var refsing öll skilorðsbundin.

Maðurinn hafði, á þáverandi heimili sínu, samræði og önnur kynferðismök við konuna gegn hennar vilja með því að beita hana ofbeldi og ólögmætri nauðung.

Lét ekki af háttseminni

Í dómi Héraðsdóms Reykjaness kemur fram að maðurinn hafi káfað á brjóstum hennar og kynfærum innanklæða og fært hana úr buxum og nærbuxum og haft við hana munnmök, neytt hana til að veita sér munnmök og haft við hana samræði.

Lét maðurinn ekki af háttseminni þrátt fyrir að konan hefði ítrekað beðið hann um að hætta, sagt honum að hún vildi þetta ekki og reynt að ýta honum burt. Maðurinn neitaði sök í málinu og kvaðst ekkert muna eftir atvikinu og hafa verið í mikilli neyslu á þessum tíma.

Er honum gert að greiða konunni 1,5 milljónir króna í miskabætur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert